Bjarni (th) og Axel ræða við gesti sýningarinnar
Bjarni (th) og Axel ræða við gesti sýningarinnar

Nemendur í 1. bekk nutu leiksýningar í dag þegar leikverkið Góðan daginn, faggi var sett á svið í Kvos Menntaskólans. Nemendur í 2. og 3. bekk sem tök höfðu á mættu einnig í Kvosina sem og starfsfólk. Höfundar leikverksins eru þau Bjarni Snæbjörnsson sem jafnframt er leikari sýningarinnar, leikstjórinn Gréta Kristín Ómarsdóttir og tónskáldið Axel Ingi Árnason. Gaman er að segja frá því að Gréta Kristín og Axel Ingi voru á sínum yngri árum nemendur í MA.

Góðan daginn, faggi er sam­starfs­verk­efni Þjóðleik­húss­ins og leik­hóps­ins Sterta­bendu. Sýningar á verkinu eru orðnar rúmlega 100 talsins í Þjóðleikhúsinu og vítt og breitt um landið. Á vef Þjóðleikhússins segir að „Góðan daginn, faggi er sjálfsævisögulegur heimildasöngleikur þar sem fertugur hommi leitar skýringa á skyndilegu taugaáfalli sem hann fékk upp úr þurru einn blíðviðrisdag. Eftir vandasamann leiðangur um innra líf sitt og fortíð og samtíma rekst hann á rætinn hommahatara á óvæntum stað. Sýningin er berskjaldandi leiðangur um skömm og mennsku og einlægt samtal við drauminn um að tilheyra.“

Ánægjulegri og lærdómsríkri samverustund í Kvosinni lauk með umræðum þar sem þeir Bjarni og Axel deildu hugleiðingum sínum með gestum sýningarinnar og svöruðu spurningum úr sal.