Nóvudeilan 1933 er stór atburður í sögu Akureyrar
Nóvudeilan 1933 er stór atburður í sögu Akureyrar

Nóvudeilan á Akureyri þann 14. mars árið 1933 er mörgum kunn. Færri vita að málið teygði anga sína inn í MA. Bréfabók frá árinu sem um ræðir og kom í leitirnar við tiltekt í skólanum ekki alls fyrir löngu, leiðir þetta í ljós.

Forsaga málsins er þessi. Félagar og stuðningsfólk Verkamannafélags Akureyrar annars vegar og Lögreglan og liðsmenn hennar hins vegar tókust á í deilu sem kennd er við skip og átti sér stað fyrir rúmum 90 árum síðan. Deilan snerist um greidd laun fyrir smíði á tunnum. Bæjarstjórn Akureyrar hafði samþykkt að bjóða upp á atvinnubótavinnu við tunnusmíðina. Sá bögull fylgdi skammrifi að launin sem bærinn hugðist greiða fyrir vinnuna voru ekki í samræmi við taxta Verkamannafélagsins. Helsti ásteytingarsteinninn í deilunni var þó afstaða nýstofnaðs Verkalýðsfélags Akureyrar sem féllst á tilboð bæjarstjórnarinnar. Þetta hleypti illu blóði í Verkamannafélagið sem setti uppskipunarbann á Nóvu en skipið flutti tunnuefnið til Akureyrar. Um 150 liðsmenn á bandi Lögreglunnar og Verkalýðsfélagsins, vopnaðir kylfum og köðlum, mættu á Torfunefsbryggju til að berjast fyrir málstað bæjarstjórnarinnar. Urðu mikil átök á bryggjunni en engin slys á fólki. Stuðningsmenn Verkamannafélagsins höfðu betur í deilunni og bæjarstjórn Akureyrar samþykkti að greiða fyrir tunnusmíðina samkvæmt taxta Verkamannafélagsins.

Tryggvi Emilsson rithöfundur rifjaði upp Nóvudeiluna í viðtali í Þjóðviljanum árið 1962:

Nóvudeilan hófst í marz 1933. Hún stóð í 6 vikur; þá voru frost og hríðar flesta daga. Hún var hörð.

Varð hún ekki vegna kauplækkunartilrauna?

Jú. Ég man vel eftir fundinum sem Jón Sveinsson bæjarfógeti boðaði á alla þá sem áttu að vinna við tunnusmíðina. Hann bauð 70 aura á tímann, en taxtakaupið var þá 1.25. Við vildum ekki sætta okkur við það og það kom í minn hlut að hafa orð fyrir okkur. Jón sagði þá að þeir sem ekki vildu vinna fyrir 70 aura gætu gengið út. Við fórum út 11 af 52 sem boðaðir voru á fundinn; — en fundurirm leystist upp. Og margir þeirra sem ekki þorðu að ganga út með okkur stóðu með okkur í deilunni. Þegar Nóva kom neituðum við að skipa upp nema greitt væri taxtakaup við tunnusmíðina. Því var neitað. Við urðum að halda vörð á bryggjunni nótt og dag því borgararnir söfnuðu liði og reyndu hvað eftir annað að afgreiða Nóvu með verkfallsbrjótum. Það var alltaf verið að koma með Nóvu að bryggjunni, en þess á milli lá hún úti á höfn.

Þáverandi skólameistari Menntaskólans, Sigurður Guðmundsson, komst á snoðir um mögulega liðssöfnun í aðdraganda átakanna. Sem málsvari nemenda skólans mótmælti hann þeirri fyrirætlan harðlega. Sigurður skrifar svo í bréfabók þann 13. mars 1933:

Mér hefir borist til eyrna að í ráði sé að kveðja nemendur hér í skólanum til aðstoðar lögregluvaldi bæjarins til að bæla niður væntanlegar óeirðir sökum vinnustöðvunar við affermingu e/s „Novu“. Út af þessu beiðist ég þess fastlega, að horfið verði frá þessu ráði, og tel til þess þær ástæður er nú skal greina:

Feður og mæður senda skólanum sonu sína og dætur til forsjár og treysta því að annast verði þar eftir föngum um heilsu þeirra. Það er best, að búast má við að nemendur hljóti af meiðsl og varanlegt heilsutjón ef til óspekta kemur og þeir verða þar í lögreglusveit. Gera má ráð fyrir að sumum foreldrum þyki það hart að börn þeirra hljóti slíkar búsifjar af skólavist á Akureyri, ekki síst það sem Menntaskólinn hér er eini skóli landsins þar sem lögregluvaldið hefir að þessu lagt slíka hættukvöð á nemendur.

Það er og bersýnilegt hverjum skólakunnugum manni að slíkt útboð raskar algjörlega námi nemenda, svo að ekkert verður úr lærdómsiðkunum meðan á róstunum stendur og piltar þurfa að vera viðbúnir kvaðningu og lögreglustörfum. Auðvitað býst ég við að óspektir í bænum glepji alltaf nokkuð skólanám. En auðsjáanlega kveður miklu meira að lestrartruflun ef nemendur taka sjálfir að nokkru leyti þátt í deilunni.

Eru nú taldar höfuðástæður til þessarar beiðni minnar.

Enn má benda á það að slík kvaðning mundi stórum spilla samlyndi nemenda í skólanum og er slíkt illa farið, ekki síst þar sem samkomulag þeirra hefir verið hið besta að undanförnu. Því má enn bæta við að ég tel útboð þetta fara algjörlega í bága við ákvæði skólareglugerðar um afskipti nemenda af hagsmunabaráttu félaga eða stétta í landinu, nema því aðeins að hér sé talið um uppreist að ræða. Ég tel það og ófært á uppeldilega vísu, að kveðja nemendur nauðuga til ryskinga og barsmíða. En mér skilst að mér bresti vald til að banna nemendum að aðstoða lögregluna við stöðvun uppreistar ef til hennar kemur og þeir vilja gerast sjálfboðaliðar. Vænti ég þess að lögreglustjóri verði við þessum tilmælum sem ég af fullkominni alvöru beini hér með til hans.

Endurtek ég og það, að mjög er varhugavert að kveðja nemendur til þessarar styrjaldar þar sem skólanum ber skýlaus skylda til að gæta hlutleysis í öllum atvinnudeilum en hins vegar er hætt við að þessi kvaðning geti valdið misskilningi og vakið óréttmæta tortryggni í skólans garð.

Menntaskólanum á Akureyri 13/3 ´33

Sigurður Guðmundsson