Gunnhildur Lilja Kristinsdóttir og Selma Rut Guðmundsdóttir. Mynd fengin af fésbókarsíðu söngkeppnin…
Gunnhildur Lilja Kristinsdóttir og Selma Rut Guðmundsdóttir. Mynd fengin af fésbókarsíðu söngkeppninnar

 

Söngkeppni framhaldsskólanna 2019 fer fram laugardaginn 13. apríl í Bíóhöllinni á Akranesi. Fyrsta keppnin fór fram árið 1990 og er því keppnin í ár hin þrítugasta í röðinni. Hinn eftirsótti verðlaunagripur, hljóðneminn, hefur komið víða við í gegnum tíðina, m.a. hér í Menntaskólanum. Eins og mörgum er kunnugt sigraði Birkir Blær Óðinsson og MA árið 2018 með laginu I put a spell on you.

Að þessu sinni taka 25 framhaldsskólar þátt. Fyrirkomulagið verður með þeim hætti að hver skóli fær tvær og hálfa mínútu til að láta ljós sitt skína. Sérstök dómnefnd verður á staðnum og mun hún, ásamt niðurstöðum úr símakosningu, skera úr um hver fer heim með hljóðnemann.

Gunnhildur Lilja Kristinsdóttir og Selma Rut Guðmundsdóttir taka þátt fyrir hönd Menntaskólans á Akureyri. Þær báru sigur úr býtum í söngkeppni MA í febrúar síðastliðnum með laginu Cool People með Chloe x Halle.

Hægt verður að fylgjast með keppninni í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV en útsending hefst kl. 20:55.

Við óskum þeim Gunnhildi Lilju og Selmu Rut góðs gengis á laugardaginn. Áfram MA!