Hafdís Inga kennir þessa viku í Svíþjóð
Hafdís Inga kennir þessa viku í Svíþjóð

Nú er að ljúka tveggja vikna samvinnu Menntaskólans á Akureyri og Hagagymnasiet i Norrköping í Svíþjóð. Hún hófst hér í skólanum í síðustu viku með heimsókn frá Patrik Finnberg sem kom í alla bekki sem eru í dönsku þessa önnina, mismikið þó. Allir fengu kynningu á Svíþjóð, æfðu sig í að skilja talaða sænsku og gerðu einfaldar samtalsæfingar. Þetta er í sjötta sinn sem verkefnið er í gangi og þegar umsóknin var skrifuð var ákveðið að að þessu sinni yrði líka fjallað aðeins um umhverfismál, eins og hægt væri, miðað við stöðu nemenda í tungumálinu. Íslensku nemendur fengu því sumir að hlusta á lag með sænsku söngkonunni Laleh sem fjallar um að við þurfum að standa saman í baráttunni fyrir betra loftslagi. Þessa vikuna hefur Hafdís Inga Haraldsdóttir verið í Norrköping og hitt alla bekki á þriðja ári. Dagskráin fyrir sænsku nemendurna var nokkuð sambærileg, fyrst var sagt frá MA og meðal annars sýnd myndbönd frá söngsal og nemendum að kasta hvítu kollunum sem sænsku nemendunum fannst skemmtileg hefð. Síðan tók við kynning á íslensku tungumáli og menningu, nemendur gerðu einfalda samtalsæfingu og hlustuðu á talaða íslensku. Loks lásu nemendur parta af Sögunni af bláu hnettinum eftir Andra Snæ Magnason og túlkuðu. Það var áhugavert og sænsku nemendurnir höfðu margt til málanna að leggja.