Wenche Kristiansen (tv) og Torill Aase (th) í Gamla skóla
Wenche Kristiansen (tv) og Torill Aase (th) í Gamla skóla

Síðastliðna þrjá daga hafa tveir kennarar frá bænum Alta sem er í Finnmörku við norðurströnd Noregs setið kennslustundir í MA. Þær Wenche Kristiansen og Torill Aase kenna norsku og félagsvísindi við framhaldsskólann í Alta þar sem um 1000 nemendur stunda nám. Heimsókn þeirra er skipulögð í gegnum Erasmus+ áætlunina en þar er að finna spennandi tækifæri fyrir kennara á öllum skólastigum til að heimsækja skóla og spegla sig í starfsháttum þeirra. Um skipulag heimsóknarinnar sá Kristinn Berg Gunnarsson en hann heldur utan um erlend samskipti í MA.

Wenche og Torill heimsóttu nemendur og kennara í menningarlæsi, íslensku, sögu, kynfræðslu og stjórnmálafræði svo eitthvað sé nefnt. Þær stigu sagnadans með nemendum í íslensku og fylgdust með nemendum læra um samlanda þeirra, norska andspyrnumanninn Nordahl Grieg, sem tengist MA sterkum böndum.

Þegar spurðar hvað stóð upp úr heimsókninni voru þær ekki í nokkrum vafa. Það kom þeim ánægjulega á óvart hversu margt var sameiginlegt eða svipað í skólunum tveimur á Akureyri og í Alta. Það átti við um starfshætti skólanna og skólamenningu. Gleðidagar nemenda vöktu lukku hjá þeim sem og hversu lífleg og vel skipulögð starfsemin er á bókasafni MA. Heimsókn á borð við þessa gefur dýrmætt tækifæri til umræðna um starfshætti, starfsþróun og menntun almennt. Tusen takk Wenche og Torill fyrir að velja skólann okkar og góða ferð heim!

Hildur Hauksdóttir