Skipst á gjöfum, frá vinstri: Jón Már Héðinsson skólameistari, Luca Gervasutti skólameistari, Anna E…
Skipst á gjöfum, frá vinstri: Jón Már Héðinsson skólameistari, Luca Gervasutti skólameistari, Anna Eyfjörð, Eva Harðardóttir, Bruno umsjónarmaður erlendra samskipta, Patricia skrifstofustjóri og Barbara stærðfræðikennari. Þær tvær síðastnefndu heimsóttu MA fyrr í október.

MA á nú í samstarfi við ítalskan skóla, Convitto í Cividale, og hyggur á frekari tengsl. Hafdís Inga Haraldsdóttir dönskukennari og verkefnisstjóri í erlendum samskiptum heimsótti ítalska skólann í fyrra og lagði drög að frekara samstarfi. Á dögunum komu þrír starfsmenn þaðan í heimsókn í MA og í síðustu viku endurgalt MA heimsóknina þegar Jón Már Héðinsson skólameistari og kennararnir Anna Eyfjörð og Eva Harðardóttir fóru til Ítalíu. Auk kennslu eru Anna og Eva UT-ráðgjafar, aðstoða nemendur og kennara við hvers kyns upplýsingatækni og Eva sér einnig um nýstofnað ritver skólans. Ferðalangarnir sendu eftirfarandi ferðasögu heim:

Heimsóknin til Convitto í Cividale á Ítalíu hefur verið bæði góð og gefandi á allan hátt. Við fengum innsýn inn í starfssemi allra þriggja deilda skólans sem staðsettar eru í þremur aðskildum byggingum. Aðalbyggingin sem var upprunalega klaustur en gegndi einnig hlutverki herspítala í fyrri og seinni heimstyrjöld hýsir grunnskólann, raunvísindabrautir yngri bekkja, skrifstofur og heimavist skólans. Önnur og talsvert nýrri bygging skólans hýsir fornmáladeild og efri ár raunvísindadeildar. Þriðja bygging skólans er síðan staðsett í litlum smábæ skammt frá Cividale og hýsir félags- og tungumálabrautir skólans.

Kennarar og stjórnendur skólans kynntu okkur fyrir starfssemi skólans auk þess að fjalla sérstaklega um þau erlendu samstarfsverkefni sem skólinn tekur þátt í. Þar á meðal má nefna Erasmus + verkefni sem tengist eðlis- og stærðfræði þar sem nemendur frá þremur löndum (Ítalíu, Spáni og Frakklandi) keppa í blönduðu liðum að því að búa til snjallar lausnir í samgöngum og borgarskipulagi. Í þessu verkefni hafa nemendur m.a. búið til vélmenni með aðstoð 3D prentunar. Annað verkefni sem skólinn stendur að er svokallað MUN verkefni þar sem nemendur frá allt að 20 þátttökulöndum taka þátt í að setja upp skugga-ráðstefnu í anda Sameinuðu þjóðanna þar sem fjallað er um ýmis aðkallandi samfélagsleg málefni er tengjast m.a. heimsmarkmiðunum. Eftirtektarvert var hversu áhugasamir og jákvæðir kennarar voru í garð  slíkra verkefna og samstarfs. Bæði kennarar og nemendur lýstu því hvernig verkefnin hefðu haft mikil og jákvæð áhrif á þau í námi og starfi.     

 Skólinn er um margt líkur Menntaskólanum á Akureyri, þá sérstaklega stúdentsnámsbrautir skólans, þar sem áhersla er á bóknám og undirbúning fyrir háskólanám. Stjórnendur Convitto hafa nú um árabil stuðlað markvisst að því að styrkja erlent samstarf og samvinnu við framhaldsskóla um allan heim, m.a. í Ástralíu og Argentínu og lýstu yfir miklum áhuga á því að tengjast og vinna með MA í framtíðinni. Við teljum að slíkt samstarf geti orðið skólanum til góðs og sjáum fyrir okkur marga möguleika til þess að MA styrki sérstöðu sína með slíku samstarfi. Þá er ótalið hversu fallegt er í Cividale, maturinn meiriháttar góður og fólkið vingjarnlegt.