Flytjendur sem hrepptu þrjú efstu sætin í söngkeppni MA 2023
Flytjendur sem hrepptu þrjú efstu sætin í söngkeppni MA 2023

Árleg söngkeppni Menntaskólans á Akureyri fór fram í kvöld. Venju samkvæmt var mikið um dýrðir í Kvosinni þegar flytjendur stigu á stokk til að skemmta gestum og heilla dómnefndina.

Nemendur skólans fluttu stórskemmtileg atriði við undirleik húsbandsins sem og var skipað nemendum skólans. Kynnar kvöldsins héldu áhorfendum við efnið og skemmtiatriði frá nemendum styttu þeim stundirnar á meðan dómnefndin réði ráðum sínum.

Þegar upp var staðið höfðu þrjú atriði hlotið náð fyrir augum dómnefndar auk þess sem gestir í sal kusu vinsælasta atriðið. Úrslit urðu sem hér segir:

Sigurvegari kvöldsins var Hrefna Logadóttir. Hrefna flutti lagið Blame it on the Sun. Ísabella Sól varð í öðru sæti með lagið Fimm. Skandall hreppti þriðja sætið með lagið Gullfallega mannvera. Vinsælasta atriði kvöldsins var valið af gestum í sal. Vatnsmýrin hreppti hnossið í þeim flokki með flutning sinn á laginu Líttu sérhvert sólarlag.