Kæru MA-ingar: Velkomin aftur í ,,skólann“ eftir páskafrí.

Við höldum áfram í fjarnámi og fjarkennslu og enn eru rúmar tvær vikur í fjórða maí þegar slakað verður á samkomubanni.

Það er þó ljóst að nám og kennsla í MA verður rafræn það sem eftir er annar og einnig hefur verið mælst til þess að lokanámsmat verði rafrænt, ýmist rafræn próf eða símat og eru kennarar að skoða möguleika á slíku.

Fjórða maí verða skólahúsin þó opnuð með ýmsum takmörkunum, fyrst og fremst þeim að það þurfa að vera tveir metrar á milli einstaklinga og hámark fimmtíu í sama rými.

Námsmat og skólaopnun er í umræðu og vinnslu hjá okkur í skólanum og í samtali við starfsfólk og stjórn skólafélagsins, það er hvaða aðgang munu nemendur og starfsfólk hafa að skólanum eftir 4. maí, og verður það kynnt mjög fljótlega.

Það eru enn nokkrar vikur eftir af önninni og mikilvægt að halda áfram af fullum krafti. Við getum þetta saman, ekki spurning. Það getur verið gott að hugsa þetta í stuttum skrefum og taka einn dag í einu. Aðalatriðið er að missa ekki sjónar á lokamarkmiðinu sem er að ljúka önninni með farsælum hætti.

Frekari upplýsingar verða sendar út í næstu viku um fyrirkomulagið eftir 4. maí og próf/námsmat.

Gangi ykkur sem allra best.

Skólameistari