- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Íslenskubrúin er ný námsbraut í MA fyrir erlenda nemendur á framhaldsskólaaldri. Brautin var áður kennd í VMA en nú hefur MA tekið við keflinu. Lögð er áhersla á að kenna nemendum íslensku þannig að þeir geti í framhaldinu stundað sjálfstætt nám í íslenskum framhaldsskólum. Við ræddum við Jóhönnu Björk Sveinbjörnsdóttur, verkefnastjóra íslenskubrúar, og Herdísi Helgadóttur, kennara.
Konurnar í brúnni
Herdís er MA-stúdent og hefur lokið námi í fjölmiðlafræði, stjórnun og stefnumótun auk kennslufræði framhaldsskóla. „Nú er ég í viðbótardiplómu í faggreinakennslu (íslenska sem annað mál). Ég hef starfað í fjölmiðlum en síðustu ár hjá Hjálpræðishernum í félags- og velferðarstörfum. Þar kviknaði áhugi minn á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli, því ég sá hve miklu máli skiptir að geta bjargað sér á tungumálinu.“
Jóhanna er mannfræðingur og hefur lengst af unnið í ferðaþjónustu á Grænlandi. „Í COVID ákvað ég að snúa mér frá ferðaþjónustu og hóf kennaranám. Ég fékk starf í grunnskóla í Breiðholti þar sem stór hluti nemenda er með erlendan bakgrunn, og þar kviknaði áhuginn á skólamálum innflytjenda. Þegar ég flutti norður árið 2022 fékk ég starf í VMA. Þar þurfti ég að finna lausnir með erlendu nemendurna, og í samvinnu við gott fólk tókst það vel. Nú held ég áfram að þróa þetta starf í MA.“
Mikilvægi íslenskubrúar
Að sögn Jóhönnu hefur menntamálaráðuneytið nú lagt aukna áherslu á að sem flestir framhaldsskólar bjóði upp á íslenskubrautir, enda sé hópur erlendra ungmenna sífellt að stækka. Skólar eins og Tækniskólinn og FB, sem lengi hafa boðið slíkt nám, séu nú orðnir fullir.„Best væri að þessu fylgdi stöðugt fjármagn svo ekki væri treyst á að skólarnir geri þetta sem eins konar hjálparstarfsemi. Það þarf að finna jafnvægi milli þess að kenna nemendum íslensku í sérhópum og að þeir séu um leið hluti af skólasamfélaginu. Okkur fannst mikilvægt að skapa lausn þar sem nemendur fengju bæði markvissa íslenskukennslu og félagslega þátttöku,“ segir hún.
Reynslan úr VMA sýndi að brottfall var mikið þegar nemendur sátu í hefðbundnum bekkjum án þess að skilja kennsluna. „Það er einfaldlega of erfitt að sitja í tíma og skilja ekkert. Einn ÍSAN-áfangi á önn dugði ekki. Þess vegna ákváðum við að stofna Íslenskubrú fyrir tveimur árum og sú leið hefur reynst mjög góð.“
Fyrsti mánuðurinn
Báðar eru þær afar ánægðar með upphafið í MA. Nemendur hafi þegar sýnt miklar framfarir. „Það sem gleður okkur mest er að sjá að þau þora að nota það sem þau læra. Það segir okkur að umhverfið sé gott og þeim líði vel. Tungumál lærist ekki bara í bókum – það þarf að fá að æfa sig,“ segir Jóhanna.
Herdís tekur undir það: „Við höfum hvatt nemendur og starfsfólk til að tala íslensku við erlendu nemendurna. Það tekur meiri tíma, krefst endurtekninga og hægara tals, en það er ómetanlegt fyrir þau. Þau eru vissulega úrvinda í lok dags, en flest eru brosandi, kát og til í þetta.
Fjölbreytni í fyrirrúmi
Nemendur vinna fjölbreytt verkefni. Þó að íslenskan sé í fyrirrúmi daglega reyna kennararnir að gera námið lifandi og fjölbreytt. „Þau auka fyrst og fremst orðaforðann en fá líka málfræði við hæfi. Nemendur hafa búið mislangan tíma á Íslandi, svo sumir eru byrjendur en aðrir með nokkurn grunn. Okkar verkefni er að mæta hverjum og einum þar sem hann er staddur,“ segir Herdís.
Jóhanna bætir við: „Í stundaskránni er líka alls konar dulbúin íslenska – þau læra á tölvur og tölvukerfi, kynnast menningu, stunda stærðfræði og íþróttir, og á næstu önn fá þau leiklist. Við viljum einnig efla samstarf við ýmsa aðila í bænum og erum opin fyrir tillögum.“
Framtíðarsýn
Að mati Herdísar er aðgengi að góðri íslenskukennslu lykilatriði í inngildingu innflytjenda. „Við viljum að þau sem hingað flytja fái tækifæri til að verða virkir og fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Það er ómögulegt án íslenskunnar.“ Og Jóhanna bætir við: „Í fullkomnum heimi væri íslenskukennsla samræmd á landsvísu með sameiginlegu námi, samræmdum matskvarða og vel menntuðum kennurum. Þá myndu nemendur vita hvar þeir standa og samfélagið gæti sett raunhæfar kröfur.“
Þær leggja báðar áherslu á að íslenskubrautir verði ekki tímabundin tilraun heldur varanleg lausn. „Þetta er langhlaup. Ungir innflytjendur eiga að geta gengið að menntun vísri og séð sér framtíð í íslensku samfélagi. Ef við gefum þeim ekki tækifæri til að læra málið erum við í raun að loka á möguleika þeirra,“
Við þökkum þeim kærlega fyrir kynninguna og vonum að íslenskubrúin dafni vel í MA til framtíðar.