Jóhann Sigursteinn Björnsson fagstjóri í stærðfræði
Jóhann Sigursteinn Björnsson fagstjóri í stærðfræði

Jóhann er alinn upp í Mosfellsbæ og bjó líka lengi í Reykjavík áður en hann flutti norður. Og hér finnst honum afar gott að vera. ,,MA er frábær staður til að vinna á, skemmtilegt fólk og skemmtilegt umhverfi og bara ótrúlega flottur skóli.“

Oft er talað um að þurfi að auka áhuga á stærðfræði og raungreinum í skólakerfinu. ,,Nr 1, 2 og 3 er að sýna áhuga, það er mjög mikilvægt. Ef kennari sýnir ekki áhuga er erfitt að selja hugmyndina. Það þarf að nálgast þetta í bland, ekki bara láta nemendur vinna handavinnu heldur líka að sjá eitthvað sem er flott, sýna undraheiminn sem er þarna úti þótt þau skilji ekkert endilega allt. Sýna þeim áhugaverða hluti, það er lykilatriði.“ Jóhann hefur sjálfur haft áhuga á stærðfræði eins lengi og hann man eftir sér en áhuginn á raungreinum kom aðeins seinna.

Jóhann á mörg önnur áhugamál en stærðfræði og segist oft fá mjög mikinn áhuga á einhverju um tíma og sökkva sér á bólakaf í það. Þegar hann var 12 ára ætlaði hann t.d. í bókmenntir því þá hafði hann gríðarlegan áhuga á  Hringadróttinssögu og las allt sem henni og höfundinum tengdist. Honum finnst enn mjög gaman að lesa, ekki síst um vísindi og sögu þeirra og reyndar sögu almennt, m.a. sögu Afríku.

Annað áhugamál sem hefur fylgt honum alla tíð er tónlist. ,,Mér finnst gaman að fara á allskyns tónleika og ekki síst eitthvað nýtt sem ég þekki ekki. Ég hlusta á allt – og rapp er þar ekki undanskilið.“

Hreyfing, líkamsrækt og heilbrigður lífsstíll skiptir Jóhann miklu máli núorðið og hann segist vera náttúrurómantíker og sé t.d. alltaf í góðu skapi ef það er gott veður. ,,Og eitt sem mér finnst mjög gott að gera, og sumum finnst mjög skrýtið, er að gera ekki neitt!  Bara horfa út um gluggann og drekka kaffi, ég þarf ekkert alltaf að vera að gera eitthvað. Einfaldir hlutir sem gleðja eins og að horfa á fallegt landslag.“

Og að lokum: Hver er svo uppáhaldsvísindamanneskjan? ,,Ég ætla að velja Michael Faraday. Ég sýndi krökkunum einmitt þátt um hann fyrir skemmstu. Hann er einn af þeim sem uppgötvaði marga af helstu eiginleikum rafmagns og bjó t.d. til fyrsta mótorinn. Hann var líka bara góð manneskja og góð fyrirmynd.“