Unnar Vilhjálmsson með jólakort föður síns
Unnar Vilhjálmsson með jólakort föður síns

Menntaskólinn á Akureyri á mörg gömul póstkort. Þau eru geymd í kössum en flest þeirra hafa ekki litið dagsins ljós áratugum saman. Á dögunum fannst skemmtilegt jólakort stílað á skólameistara og eiginkonu hans í Menntaskólanum, dagsett 6. desember 1954. Sendandinn hafði þá nýlega lokið námi við MA og var farinn að stunda háskólanám á fjarlægum slóðum. Svo skemmtilega vill til að sonur umrædds nemanda er kennari við MA í dag.

Vilhjálmur Einarsson (5. júní 1934 - 28. desember 2019) var í MA í upphafi sjötta áratugarins og stundaði þá íþróttir af miklum móð samhliða námi. Í framhaldinu hóf hann nám við Dartmouth-háskóla (Dartmouth College) í New Hampshire í Bandaríkjunum. Jólakortið prýðir blýantsteikning af Baker-bókasafni skólans eftir listamanninn Charles H. Overly. Jólakveðjuna skrifaði Vilhjálmur til hjónanna Margrétar Eiríksdóttur og Þórarins Björnssonar. Tveimur árum seinna skráði Vilhjálmur nafn sitt á spjöld íþróttasögunnar þegar hann hlaut silfur í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne og setti jafnframt Ólympíumet.

Unnar Vilhjálmsson hefur kennt við MA um langt árabil. Eins og faðir hans fyrrum, hefur Unnar á þeim tíma sinnt íþróttaiðkun við skólann af miklum krafti. Íþróttir hafa verið hans ær og kýr og þá ekki síst íþróttaiðkun nemenda. Á meðfylgjandi mynd má sjá Unnar virða fyrir sér jólakortið sem faðir hans sendi til skólans fyrir 70 árum síðan. Vilhjálmur faðir hans er á innfelldu myndinni í hópi íþróttagarpa í MA. Hann er fyrir miðju aftan við unga manninn með bikarinn.