Magnús Orri Aðalsteinsson
Magnús Orri Aðalsteinsson

Nemendur og starfsmenn MA deila upplifunum sínum af námi og kennslu í samkomubanni með lesendum ma.is.

Magnús Orri Aðalsteinsson (eða Morri) heiti ég og er í 3. A í Menntaskólanum á Akureyri. Nú erum við að upplifa söguna. Oft hef ég litið aftur í tímann og hugsað með mér hvernig það er að upplifa sögulega atburði og lúmskt viljað gera einmitt það. En eins og skáldið sagði: ,,Be careful what you wish for, because you might get it”.

Ég er mikill menntskælingur í mér, hef gaman að lífinu því það er ekki orðið það flókið ennþá. Ég miða hamingju mína við hinu stóru B tvö: Bækur og Boisarnir. Fyrir þá sem ekki vita þá er Bois (skrifað með venjulegu i), ólíkt Boys (með y) kynlaust orð og þýðir hvorki strákur né stelpa, heldur krakkar eða vinir. Ég hef innilega gaman að náminu mínu og hentar mín braut mér afskaplega vel, þar koma bækurnar inn. Fjarnámið reynist mér þægilegt því ég hef gaman að því að vera upptekinn. Ég vakna klukkan 10, byrja að læra og hætti svo bara þegar ég er búinn með það sem ég hafði skipulagt fyrir daginn. Þetta finnst mér gott og gengur prýðilega og kom mér á óvart hvað kennarar eru fljótir að laga sig að breyttum tímum og ég hrósa þeim fyrir það.

Það skortir samt enn hitt B-ið. Ég viðurkenni það alveg að fjarnámið er einmannaleikinn uppmálaður. Margir bekkir eru í kennslu á Zoom en þar sem námið mitt gengur út á að lesa, greina og svara spurningum þá er lítil þörf á því. Ég vakna, læri og svo er ekkert meira. Það er enginn í kvosinni hlæjandi að engu, það er enginn í stofu að kvarta yfir Shakespear og það er enginn félagi til að heilsa á göngunum. Fjarnám snýst bara um að sinna náminu en menntaskólanám snýst um mun meira en bækurnar og greiningarnar. Menntaskólalífið og almenna “væbið” þegar maður er innan veggja MA skiptir jafn miklu máli og maður lærir líka helling af því að vera í kringum annað fólk.

Eins og góður maður sagði eitt sinn: “Ég lærði alveg helling í Menntaskóla, fæst af því var kannski úr bókunum”.