- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Í skólum kenna kennarar og nemendur læra. En kennarar læra líka – og ljúka prófum. Þrír kennarar skiluðu meistara- og doktorsverkefnum í lok haustannar.
Kristinn Berg skilaði meistaraverkefni í MBA – Master of Business Administration við háskólann University of Highlands and Islands, sem er í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Lokaverkefni hans fjallar um þróun frumkvöðlahugsunar hjá nemendum í framhaldsskólum, hvaða hæfni nemendur öðlast og hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar til að hún nái raunverulegum árangri. Kristinn segist hafa fengið að vinna með frábærum viðmælendum sem deildu reynslu sinni úr nýsköpun og menntakerfinu og gaf það verkefninu dýpt og skýra hagnýta slagsíðu.
Maija Kalliokoski lauk MA í ensku eða Master's Degree Programme for Multidisciplinary Language Experts í háskólanum í Jyväskylä sem er háskólaborg og vagga kennaramenntunar í Finnlandi. Ritgerðin fjallar um hlutverk og skyldur kennara gagnvart nemendum og heitir “One would think it is about teaching the language but…” : English teachers’ perceptions of their role in the classroom.
Arnrún Halla Arnórsdóttir hefur fengið doktorsritgerð sína samþykkta. Verkið er til doktorsgráðu í hagnýtri siðfræði við HÍ og fjallar um möguleikann á því að nota samhygð markvisst til að bæta samskiptafærni hjúkrunarfræðinga í umönnun fólks með heilabilun og ber heitið ,,Empathy in Dementia Care - A Study of Professional Virtue, Communication and Dignity in Nursing Practice.
Eitt af því sem kom eftirminnilega á óvart í þessari rannsóknarvinnu að sögn Arnrúnar er að nýjustu megindlegu rannsóknir tengdar samhygð sem faglegum færniþætti sýna fram á að markviss og meðvituð notkun hjúkrunarfræðinga, og fólks sem vinnur við viðhald og uppbyggingu velferðar annarra, á hugtakinu, getur dregið úr líkum á kulnun. Samhygð virðist hafa innifalin einhverskonar verndarþátt gegn þeirri uppgjöf sem oft fylgir því að starfa undir álagi og upplifa sig vanmáttugan. Samhygð nefnilega einblínir á að sýna skilning og mæta fólki þar sem það er statt, en ekki ná stjórn eða breyta einhverju sem ekki er hægt að breyta.
Á fyrsta starfsmannafundi vorannar fengu Arnrún Halla, Kristinn og Maija blómvönd frá skólanum í tilefni þessara prófgráða. Við óskum þeim innilega til hamingju.