Kennarar og nemendur MA funda þessa dagana í netheimum. 
Mynd: skjáskot af facebook.
Kennarar og nemendur MA funda þessa dagana í netheimum.
Mynd: skjáskot af facebook.

Rétt eins og aðrir þessa dagana tekst starfsfólk MA á við áskoranir þær sem fylgja útbreiðslu veirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19.

Eins og öllum er kunnugt var framhaldsskólum landsins lokað um nýliðna helgi vegna samkomubanns. Nemendum er þannig meinaður aðgangur að skólanum á meðan banninu stendur. Skólastarf heldur þó áfram en með mjög svo breyttu sniði. Kennarar sinna nú vinnu sinni mestmegnis heima og hið sama gildir um nemendur. Hóparnir þurfa þó áfram að eiga í samskiptum og gera þeir það með því að nýta sér tæknina.

Nú þegar fyrsta vika samkomubanns er rúmlega hálfnuð er óhætt að segja að fjarfundir af ýmsu tagi fari víða fram í netheimum. Kennarahópar, stórir og smáir, funda í gegnum tölvuskjáinn og nemendur sjá og heyra í kennurum sínum á sama vettvangi. Óneitanlega auðveldar þetta vinnu kennara og nemenda við annars afar óvenjulegar og krefjandi aðstæður sem nú eru uppi í skólasamfélaginu. Þó sjálfsagt enginn fagni því að skólinn loki við slíkar kringumstæður má gleðjast yfir þeim möguleikum sem nám og kennsla á 21. öldinni býður upp á.