Patrik Finnberg og Hafdís Inga Haraldsdóttir
Patrik Finnberg og Hafdís Inga Haraldsdóttir

Erlend samskipti hafa eðlilega legið í dvala undanfarið og því var sérlega ánægjulegt að geta loks hrint í framkvæmd Nordplus verkefni sem MA er þátttakandi í. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja skóla, MA, Hagagymnasiet i Norrköping í Svíþjóð og Tornbjerg Gymnasium í Odense í Danmörku og gengur út á kennaraskipti á milli skólanna. Um miðjan nóvember var sænskukennarinn Patrik Finnberg í viku í MA, hitti alla bekki á þriðja ári og fræddi þá um sænska menningu. Kennslan fór nær eingöngu fram á sænsku og það kom nemendum á óvart hversu vel þeim gekk að skilja. Þeir hlustuðu á og lásu sænsku, auk þess að æfa einföld samtöl. Vakti heimsóknin mikla lukku og nemendur áhugasamir og tóku vel þátt. Í nýafstaðinni viku var Hafdís Inga Haraldsdóttir dönskukennari að kenna í Norrköping. Hún hitti einnig alla nemendur á þriðja ári og þó að íslenskukennslan væri kannski ekki mikil þá hlustuðu nemendur á einfalda íslensku og æfðu einföld samtöl. Kennslan fór fram á sænsku, dönsku og íslensku og fengu nemendur að heyra ýmsan fróðleik um Ísland, íslenska þjóð, menningu og siði. Markmið verkefnisins er að vekja áhuga nemenda á hinum Norðurlöndunum, benda þeim á hversu margt þessar þjóðir eiga sameiginlegt og hvetja þá til að kynna sér löndin betur.

Hafdís Inga Haraldsdóttir