- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Breyting er orðin á ásýnd Kvosar. Hún fer ekki framhjá núverandi og fyrrverandi nemendum, starfsfólki og öðrum velunnurum skólans sem eiga þar leið um. Í sumar eignaðist skólinn myndverk eftir Örn Inga Gíslason listamann. Fjölskylda listamannsins gaf skólanum verkið í tilefni þess að 2. júní sl voru liðin 80 ár frá fæðingu hans. Örn Ingi lést árið 2017. Verkið sem um ræðir heitir Kjötkveðjuhátíð og er frá árinu 1992. Kjötkveðjuhátíð Arnar Inga hefur nú leyst Baulu af hólmi, málverk Ásgríms Jónssonar frá árinu 1925 sem hefur glatt gesti Kvosarinnar lengi, líklega allt frá vígslu hennar árið 1996. Skólinn fékk Baulu að gjöf frá ríkinu fyrir tæplega 98 árum síðan, þann 29. október árið 1927. Eftir því sem árin líða fjölgar listaverkum sem skólanum áskotnast og er sú þróun ekki endilega í samræmi við stækkun hans. Þetta kallar á lausnamiðaða nálgun. Ein leið sem farin hefur verið er að hvíla „gömul“ listaverk tímabundið og leyfa „nýjum“ að njóta sín en slíkt fyrirkomulag hefur gefið færi á að færa til verk innan skólans.