Það var enn meira líf og fjör í MA í dag en venjulega, því fimm grunnskólar komu í heimsókn í skólakynningu; Brekkuskóli og Síðuskóli fyrir hádegi og Giljaskóli, Glerárskóli og Oddeyrarskóli eftir hádegi.

Markmiðið með kynningunni var að nemendur fengju tilfinningu fyrir því hvernig skóli MA er – þar er bóklegt áhugavert nám, öflugt félagslíf og gaman að vera. Nemendur fóru á þrjár stöðvar í skólanum, þar sem áhersla var á raungreinar og stærðfræði á einni stöð, erlend tungumál á annarri og íslensku og félagsgreinar á þeirri þriðju. Þar tóku á móti þeim bæði kennarar og nemendur í MA, stofurnar voru búnar ýmsum gögnum og munum sem tengjast námsgreinunum á einn eða annan hátt. Á hverri stöð gátu nemendur tekið af sér myndir við bakgrunninn #komduíMA og skreytt sig ýmsum fylgihlutum tengdum námsbrautunum. Verðlaun fyrir bestu myndina verða miðar á sýningu LMA en frumsýning verður 9. mars.  

Síðast en ekki síst sagði stjórn skólafélagsins frá félagslífinu í MA. Að lokinni kynningu gæddu nemendur sér á vöfflum með sultu og rjóma áður en þeir héldu heim á leið.  

MA þakkar nemendum úr þessum grunnskólum kærlega fyrir heimsóknina. Þetta var skemmtilegur dagur - enda er gaman í MA!