3. bekkingar syngja skólasönginn
3. bekkingar syngja skólasönginn

Konunglegur dansleikur var haldinn í Íþróttahöllinni síðastliðið föstudagskvöld, 24. nóvember, en það var þema árshátíðar menntskælinga í ár. Það tekur tíma að breyta íþróttahúsi í konungshöll, en nemendur unnu að undirbúningi nótt og dag síðustu vikur og var hátíðin öll hin glæsilegsta. Langflestir nemendur skólans taka þátt á árshátíðinni og engin undantekning var á því í ár. Bautinn sá um matinn en nemendur þjónuðu til borðs og sáu um uppsetningu og frágang með þeim.

Fjölmörg skemmtiatriði voru á dagskrá og má þar nefna myndbönd frá myndbandafélögum skólans, dansatriði frá PríMA, tónlistaratriði frá TóMA, söngatriði frá SviMA og ræður formanns Hugins, skólameistara og heiðursgests, sem að þessu sinni var MA-ingurinn Vilhelm Anton Jónsson, eða Villi naglbítur.

Þriðju bekkingar skörtuðu margir íslenskum þjóðbúningum að fornum sið og er alltaf ákveðinn hátíðleiki falinn í því þegar þau ganga inn í salinn, þetta er falleg og skemmtileg hefð sem vekur eftirtekt. Gömlu dansarnir eru líka sívinsælir og voru dansaðir í efri salnum og má sannarlega segja að gólfið hafi verið ansi þétt skipað þegar mest var. Dansleikurinn á stóra sviðinu tók svo við en þar tróðu upp Færibandið, Jói P. og Króli, Patrik Atlason og diskókóngurinn Páll Óskar og stóð fjörið langt fram á nótt.

Á Instagram og Facebook síðum skólans er myndband sem fangar stemninguna vel en Ágústína Gunnarsdóttir setti það saman. Á myndinni sem fylgir þessari frétt má sjá nemendur þriðja bekkjar syngja skólasönginn við upphaf hátíðarinnar.

Allur undirbúningurinn margborgaði sig því árshátíð MA 2023 var öllum til sóma sem að henni stóðu og tókst vel í alla staði. Margar hendur vinna létt verk!