Birna Eyfjörð (t.v.) og Sólrún Svava (t.h.) eru hljómsveitarstjórar í uppfærslu LMA á söngleiknum Út…
Birna Eyfjörð (t.v.) og Sólrún Svava (t.h.) eru hljómsveitarstjórar í uppfærslu LMA á söngleiknum Útfjör

Á morgun, laugardaginn 9. mars, frumsýnir Leikfélag Menntaskólans á Akureyri söngleikinn Útfjör. Söngleikurinn er byggður á bókinni Fun Home: A Family Tragicomic eftir Alison Bechdel. Tugir nemenda taka þátt í sýningunni, ýmist við söng, leik og dans á sviðinu eða við tæknimál, markaðssetningu eða önnur verkefni utan sviðsljóssins. Eitt af þeim verkefnum er umsjón með tónlistinni sem eðli málsins samkvæmt skipar stóran sess í söngleiknum. Nemendur MA sjá um hljóðfæraleik í sýningunni sem og hljómsveitarstjórn. Hljómsveitarstjórar eru þær Birna Eyfjörð Þorsteinsdóttir og Sólrún Svava Kjartansdóttir.

Tónlistin stór hluti af sýningunni

Þrátt fyrir mikið annríki þessa síðustu daga fyrir frumsýningu gáfu Birna og Sólrún sér tíma til að spjalla við fréttaritara ma.is um tónlistina í söngleiknum, hlutverk hljómsveitarstjóra og samstarf við hljóðfæraleikara sýningarinnar. Ég spurði Birnu og Sólrúnu fyrst hvað felist nákvæmlega í því að vera hljómsveitarstjóri í sýningu sem þessari.

Sólrún: Okkar hlutverk er m.a. að hvetja krakka til að sækja um að vera með og velja í hljómsveitina. Við sjáum um útsetningu á tónlistinni í sýningunni. Sum af þeim hljóðfærum sem voru notuð í upprunalegu útgáfunni höfum við ekki aðgang að og öðrum höfum við bætt við sem ekki var gert ráð fyrir, t.d. víólu. Við þurfum að skipuleggja æfingar og koma liðinu saman, hafa yfirumsjón með þessu öllu saman. Fyrir utan hljómsveitarstjórn er ég einnig fiðluleikari í sýningunni.

Birna: Ef enginn hefði yfirumsjón með þessum hluta í þessari tilteknu sýningu mætti búast við mikilli kaos. Tónlistin er svo stór hluti af sýningunni og því má segja að okkar þáttur sé ekkert minni en leikaranna.

Við finnum að við skiptum máli

Þær Birna og Sólrún eru ekki að taka þátt í uppfærslu á vegum LMA í fyrsta skipti. Skyldi undirbúningur fyrir Útfjör vera með öðrum hætti en þær eiga að venjast frá öðrum uppfærslum Leikfélagsins?

Birna: Ef ég ber saman við sýningu síðasta vetrar þá útsetti ég ekki eins mikið þá en ég samdi lag hins vegar og útsetti fyrir hljómsveitina. Það var mjög gefandi og eitthvað alveg nýtt fyrir mig. Ég hafði því örlitla reynslu þegar kom að undirbúningi fyrir Útfjör. En þetta er mjög krefjandi verkefni. Þarna erum við með meistaraverk sem tók sjö ár að semja og ég fæ það verkefni að útsetja það fyrir vini mína sem er mjög gaman. Við viljum virða upprunalegu útgáfuna og í mínum útsetningum breyti ég ekki forminu heldur skipti kannski frekar út hljóðfærum.

Sólrún: Já, við laumum inn tveimur saxafónum, flautu og klarinett í staðinn fyrir það sem við getum ekki boðið upp á, t.d. enskt horn sem ég held að enginn á Akureyri spili á. Ég hef aldrei verið tónlistarstjóri áður þannig að fyrir mig er álagið meira núna. En því fylgja líka tækifæri. Fyrir mig er þetta verkefni meira sköpunarlega gefandi, að fá að útsetja fyrir krakka. Þetta eru allt vinir manns og það er gaman að fá þá til að spila tónlistina sem þú hefur verið að vinna að í einhvern tíma. Tónlistin í sýningunni er svolítið eins og barnið manns og hún hefur mikið vægi. Við finnum alveg fyrir því að við skiptum máli. Ef við myndum ganga út þá yrði engin sýning [Sólrún og Birna hlæja].

Við köllum okkur „litlu LMA-fjölskylduna“

Þegar þessi orð eru skrifuð er rúmur sólarhringur í frumsýningu. Mikil vinna er að baki og stutt í að nemendur sjái afrakstur hennar á fjölum Samkomuhússins að viðstöddum frumsýningargestum. Er allt orðið klárt fyrir laugardagskvöldið og hvernig líður hljómsveitarstjórunum á þessari stundu þegar frumsýning er handan við hornið?

Sólrún: Foreldrar mínir eru tónlistarmenn og eins og þau segja; „það á allt að smella á síðustu stundu“. Allt á því að smella í dag [föstudag 8. mars]. Maður á að upplifa stress fram að generalprufu og svo sátt eftir það. Það er gaman að hugsa til þess að núna sé komið að þessu, eitthvað sem við Birna vorum að dunda okkur við í jólafríinu, að hugsa um mögulegar útsetningar. Hugmyndir sem núna eru orðnar að tónlist sem spiluð er af hljómsveit í góðum hljómgæðum. Við erum búnar að eyða miklum tíma með sömu einstaklingunum núna í langan tíma og stundum reynir það á. En við erum góð saman og köllum okkur „litlu LMA-fjölskylduna“. Núna þegar þetta er um það bil að fara að gerast þá kemur yfir mann einhver góð tilfinning um að þetta verði bara gaman.

Birna: Ég man þegar stjórnin var að ákveða sýningu vetrarins. Þeim fannst að við yrðum að setja upp alveg sérstakt leikrit þar sem um 70. sýningu LMA væri að ræða. Ég hafði aldrei heyrt um þetta verk áður og eftir að hafa hlustað á tónlistina... ja þá þótti mér væntingarnar full miklar og standarinn hár. En svo létum við slag standa og hentum okkur út í djúpu laugina. Útkoman er góð að mínu mati. Ég er rólegri núna en fyrir frumsýninguna síðasta vetur. Ég hef alveg fundið fyrir því hvað við höfum vaxið eftir því sem á undirbúninginn líður. Þetta verður alltaf betra og betra hjá okkur með hverjum deginum. Við erum með hörkulið sem hefur metnað til að skila góðu verki.

Fréttaritari þakkar þeim stöllum fyrir spjallið og óskar þeim og öllum sem að sýningunni koma velfarnaðar á sviði og bak við tjöldin. Allir á Útfjör!