María Pálsdóttir var nemandi við MA árin 1986-1990
María Pálsdóttir var nemandi við MA árin 1986-1990

María Pálsdóttir leik- og athafnakona stendur í ströngu þessa dagana. Á milli þess sem hún stekkur á svið í Samkomuhúsinu til að taka þátt í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á fjölskyldusöngleiknum Gallsteinar afa Gissa, vinnur hún að því að setja á fót setur um sögu berklanna á Kristnesi í Eyjafjarðarsveit. María var nemandi í Menntaskólanum á Akureyri árin 1986 – 1990.

Hvað er eftirminnilegast við árin í MA?

Þetta var góður tími - allt að gerast. Maður hleypti heimadraganum, fór að leigja út í bæ eins og fullorðin kona sem ég var engan veginn! Bylgjaðist í Möðruvallakjallara í löngu með öllum hinum nemunum, kókómjólk og kringla með osti í örbylgju, algjör snilld. Að smitast af því í tíma hjá Erlingi Sigurðssyni að ljóð og bókmenntir eru eitthvað það stórkostlegasta í heimi. Að fá andarteppu í tjáningu hjá Jóni Má þegar ég átti að flytja ræðu úr púlti því stressið var svo mikið. Að vera rekin úr 3. dönskutíma skólavistarinnar því ég var svo óþolinmóð - fannst hlutirnir ekki gerast nógu hratt... Dansa gömlu dansana á árshátíð skólans. Að ganga um brakandi Gamla skóla og mæta sögunni á hverju útskriftarspjaldi. Biðja um söngsal. Fá söngsal. Tékka á einkunnum sem hengdar voru upp undir nafni fyrst en svo kennitölu minnir mig... Ægileg spenna. Hoppa út um glugga í tíma í Möðró hjá Sigga Bjarklind. Læra á bókasafninu, pönnukökuritgerðin. Þetta heldur bara áfram og áfram en ég set punkt hér.

Einhver heillaráð til nemenda MA í dag?

Bara líta upp úr bókunum annað slagið og taka þátt í einhverju - íþróttum, kór, leikfélagi, ljósmyndafélagi og ekki klikka á að eignast vini fyrir lífstíð.

 

Við þökkum Maríu fyrir minningarbrot og góð ráð.