Hádegismatur eldaður út frá listaverkinu Composition C (No.III) with Red, Yellow and Blue eftir Piet…
Hádegismatur eldaður út frá listaverkinu Composition C (No.III) with Red, Yellow and Blue eftir Piet Mondrian.

Listaverk vikunnar – Matur og listaverk

Í mötuneyti starfsfólks ræður mikið listafólk ríkjum, þau Arnar Ari Lúðvíksson og Hekla Björt Helgadóttir. Utan vinnu sinna þau listagyðjunni með ýmsum hætti, Arnar Ari þeytir gjarnan skífum og Hekla hefur haldið margskonar sýningar og á t.d. núna verk á sýningunni Vor í Listasafni Akureyrar. Hún sýndi einnig sviðslistaverk á síðustu Akureyrarvöku ásamt Fanneyju Kristjánsdóttur. Bæði koma þau að listrýminu Kaktus þar sem haldnar eru sýningar og ýmsir menningarviðburðir.

Listin fær líka sitt rými í eldhúsinu. Fyrir utan það að maturinn er listilega framreiddur verður nú í vetur maturinn á fimmtudögum tileinkaður og eldaður í anda listaverks. Fyrstu verkin voru Reflection of the Big Dipper eftir bandaríska abstrakt - expressjónistann
Jackson Pollock og Hieroglyphs No. 12 eftir eiginkonu hans Lee Krasner.

Á facebook síðu starfsfólks birtir Hekla mynd af listaverki vikunnar og fróðleik um listamann og verk. Starfsfólk hefur svo nokkra daga til að láta ímyndunaraflið njóta sín og sjá fyrir sér hvað gæti verið í matinn sem tengist eða kallar á viðkomandi listaverk.

Hollenski málarinn Piet Mondrian á listaverk þessarar viku, Composition C (No.III) with Red, Yellow and Blue.

Hekla segir: ,,Mondrian var gagntekinn af því að miðla lífsins einfeldni og fegurð eftir fræðunum. Kannski má setja það í samhengi við upplifun hans á fyrri heimstyrjöldinni og upphafs þeirrar síðari. Á þessum tíma hafði Mondrian flakkað frá Hollandi til Parísar og þaðan til Man Hattan til að komast undan eymdinni sem skók Evrópu. Á sama tíma þróaði hann með sér hugsjónir og aðhylltist tvær stefnur innan heimspekinnar sem hann vann svo út frá ævilangt. Annars vegar theosophy (mistísk guðspeki, fullkomnun manneskjunnar) og hins vegar anthroposophy (bein tengsl við spirítíska heima með þróun innra sjálfs). Heimspekingar við Menntaskólann sjá sér kannski leik á borði og færa okkur enn betri útlistingar? Allavega... Eftir að Mondrian settist að á Man Hattan stóðu verk hans og dálætið á estitíkinni í blóma. Í New York vann hann sín þekktustu listaverk sem meðal annars öðluðust heimsfrægð með kjólum Yves Saint Laurents 1965.“