Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands

MA-ingar á kjörnámsbrautum í tónlist og sviðslistum hafa lagt sitt lóð á vogarskálar listarinnar að undanförnu.

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands hélt tónleika á sunnudaginn var í Eldborg þar sem flutt var Sinfónía nr. 2 eftir Sergei Rakhmanínov undir stjórn Kornilios Michailidis. Segja má að Ungsveitin sé einskonar ungmennalandslið í klassískri tónlist og eru þátttakendur valdir inn með prufuspili.

Eins og kemur fram á heimasíðu Tónlistarskólans á Akureyri er þessi sinfónía gullfalleg en mjög krefjandi og var ótrúlegt að heyra frammistöðu sveitarinnar þar sem ekkert var gefið eftir af gæðakröfum.

Tveir MA-ingar tóku þátt í ár, þau Helga Björg Kjartansdóttir víóluleikari 1A og Matiss Leo Meckl slagverksleikari 3A. Þau eru bæði nemendur á tónlistarkjörsviði MA.

Til viðbótar við þessa tvo núverandi nemendur voru sex fyrrverandi nemendur Tónlistarskólans og brautskráðir MA-ingar í hljómsveitinni að þessu sinni. Það eru þær Ingunn Erla Sigurðardóttir trompet, Sólrún Svava Kjartansdóttir fiðla, Diljá Finnsdóttir víóla, Katrín Karítas Viðarsdóttir víóla, Helga María Guðmundsdóttir selló og Rún Árnadóttir selló en þær stunda núna allar nám við Listaháskóla Íslands.

Sl. föstudagskvöld var leikverkið Líf eftir Margréti Sverrisdóttur sýnt í Samkomuhúsinu á Akureyri. Á undan verkinu var flutt lokaverkefni af sviðslistabraut Menntaskólans. Verkið er eftir Sóleyju Evu Magnúsdóttur 3L og heitir  ,,Dóttir, sonur, læknar.” Þetta var lokaverkefni Sóleyjar í leikstjórnaráfanga á vorönn í fyrra. Þorbjörg Þóroddsdóttir og Embla Sif Ingadóttir, báðar í 3L, léku í verkinu sem Sóley leikstýrði einnig. Verkið fjallar um tvö systkini og áhrif erfiðrar æsku á þau.