Þetta hávaxna lerkitré var fellt í vikunni
Þetta hávaxna lerkitré var fellt í vikunni

Lóð Menntaskólans er býsna stór og gróðursæl. Stefán Stefánsson skólameistari 1908-21 hóf framkvæmdir við lóðina fljótlega eftir að hann tók við sem skólameistari og hann og fjölskylda hans gróðursettu fyrstu trén sunnan og austan við skólann. Allar götur síðan hefur lóðinni verið sómi sýndur, fjölmörgum trjám verið plantað og útilistaverk verið sett upp. Á 100 ára afmæli skólans var t.d. plantað 100 trjám norðan við Gamla skóla. Nú er svo komið að frekar þarf að fella tré heldur en að bæta við því mörg þeirra eru orðin gömul og afar hávaxin. Eitt slíkt var fellt í vikunni, lerkitré sem stóð fyrir sunnan Gamla skóla. Framundan eru spennandi framkvæmdir á lóð skólans en til stendur að útbúa útiæfingasvæði, þar sem verður fjölnota gervigrasvöllur og æfingatæki, fyrir ofan Fjósið, íþróttahús skólans.