Hólar á hátíðardegi
Hólar á hátíðardegi

Skólaárinu er að ljúka þessa dagana og prófum er lokið nokkru fyrr en venjulega. Skólaslit verða með hefðbundnum hætti 17. júní.

Þar sem skólaárið hófst á síðasta hausti nokkru fyrr en áður er skólaárinu jafnframt að ljúka fyrr og vorannarpróf hafa nú verið fyrr en venja er til. Reglulegum prófum lauk í síðastliðinni viku en sjúkrapróf og endurtökur hafa verið í þessari viku. Síðasti kennarafundur ársins er á morgun, föstudag, og starfsfólk fer í vorferð til Siglufjarðar að honum loknum. Ræstitæknar hefa unnið hörðum höndum við að skúra, skrúbba og bóna svo hús skólans verði glæsileg þegar gestir flykkjast hingað í kringum hátíðahöldin, og áfram hefur verið haldið við að koma listasafni skólans í besta form.

Skóla verður slitið með hefðbundnum hætti 17. júní í Íþróttahöllinni og hefst athöfnin klukkan 10. Að þessu sinni verða brautskráðir 164 stúdentar. Þetta er í næstsíðasta sinn sem brautskráðir eru stúdentar úr fjórða bekk, en á næsta vori verður stúdentahópurinn tvöfaldur, þá verða brautskráðir stúdentar úr síðasta fjórða bekknum og fyrsta hópnum sem lýkur prófi í þriggja ára kerfinu.

Innritun nemenda í fyrsta bekk á komandi skólaári stendur enn yfir og um miðja næstu viku mun liggja fyrir hve margir verða í fyrsta bekk skólaárið 2018-2019.

Afmælisstúdentar munu flykkjast til Akureyrar í næstu viku og gleðjast á tímamótum með ýmsu móti, meðal annars MA-hátíðinni í Íþróttahöllinni að kvöldi 16. júní. Á sama stað verður að vanda hátíðarsamkoma nýstúdenta og fjölskyldna þeirra að kvöldi 17. júní.

Skrifstofur skólans verða opnar til 22. júní. Þá tekur við sumarleyfi allra starfsmanna.