- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Þrír hópar nemenda í menningar- og sögutengdum áföngum í MA heimsóttu í haustfríinu Berlín, London og París. Ferðirnar einkenndust af fróðleik og ævintýraanda og urðu að lifandi kennslustofum í þremur stórborgum.
BERLÍN – Saga, samtími og súkkulaði
Nemendur í valáfanganum Berlínarferð eru ný komin heim úr fjögurra daga ferð til Berlínar. Eftir að hafa unnið ýmis verkefni og kynnt sér borgina vel var komið að því að sjá og upplifa með berum augum. Ferðin heppnaðist vel og einkenndist af gleði og vináttu.
Alla dagana var skipulögð dagská fram eftir degi. Fyrsta daginn gengum við eftir breiðgötunni Unter den Linden að Brandenborgarhliðinu. Við götuna eru margar glæsilegar byggingar og við stoppuðum og kíktum inn í Humbolt háskólann. Auðvitað sáum við leifar Berlínarmúrsins og ýmislegt annað sem tengist skiptingu Þýskalands og sameiningunni, t.d. East Side Gallery, Checkpoint Charlie og Bernauerstraße, þar sem við fengum leiðsögn.
Hópurinn skoðaði líka Minnismerkið um helförina og Potsdamer-torgið og fór upp á Þinghúsið (Reichstagsebäude) þar sem hlustað var á frásögn um borgina á meðan gengið var upp hvolfþakið ofan á byggingunni. Við fórum svo að verslunargötunni Kurfürstendamm í vesturhluta borgarinnar og skoðuðum þar Minningakirkjuna (Kaiser-Wilhelm-Gedächtniskirche).
Í áfanganum gera nemendur kynningar um söfn í Berlín, alls 25 söfn, og allir völdu sér svo tvö söfn til að skoða í ferðinni. Að sjálfsögðu var líka verslað og notið. Hópurinn fór saman í Ritter Sport súkkulaðibúðina þar sem sumir settu saman sitt eigið súkkulaði og einu sinni fór allur hópurinn saman út að borða. Nokkrir fóru í Sjónvarpsturninn og borðuðu á veitingastaðnum þar. í haust var búið að skoða hvaða viðburðir væri í gangi þessa daga og margir völdu að fara á körfuboltaleik hjá Alba Berlin til að sjá Íslendinginn Martein Hermannsson spila. Einnig fóru sumir í dýragarðinn og á ýmsar sýningar sem voru í gangi.
Almenningssamgöngur voru mikið notaðar og eftir ferðina eru allir færir um að bjarga sér sjálfir á milli staða í Berlín og sennilega í öðrum borgum líka. Lokaverkefnið í áfanganum er ferðadagbók og það verður gaman að sjá þar myndir og upplifun nemenda í ferðinni.
Sigrún Aðalgeirsdóttir, þýskukennari og fararstjóri
LONDON – Menning, matur og minningar

Menningarferð nemenda í Londonáfanganum gekk ljómandi vel í ár. Flogið var beint frá Akureyri og allt ferðalag var eins og best verður á kosið. Nemendur fóru víða í stórborginni, kíktu niður á Westminster, sáu konunglegu verðina og Buckingham höll, snæddu mat á hinum fræga Borough Market og kíktu á Shakespeare Globe.
Einnig lá leiðin gegnum konunglega garða, að frægum minnisvörðum og stórfenglegum arkitektúr. Kíkt var á fallega list á safni Viktoríu og Alberts, gengið að besta háskóla Evrópu og auðvitað létum við okkur ekki vanta í leikhús. Nemendur nýttu einnig frjálsan tíma í að skoða aðra fræga markaði, fara á fleiri leiksýningar, sjá uppistand og smakka ýmsan ljúffengan mat. Hópurinn kom svo heim nokkuð þreyttur, með minna á bankareikningunum en reynslunni ríkari.
Ágústína Gunnarsdóttir, enskukennari og fararstjóri

PARÍS – Listir, ljós og líf
Lagt var af stað snemma morguns 16. október með flugi til Parísar og komum við til borgar ljóssins stuttu eftir hádegi. Rúta beið okkar á flugvellinum sem átti að flytja okkur á farfuglaheimilið í 9. hverfi. En þá kom upp furðuleg staða, við vorum í rangri rútu, þó frá réttu fyrirtæki! Þessi rúta átti að flytja hóp „íslenskra söngfugla“ til Reims, þar sem allt flýtur í kampavíni. Bílstjórinn reyndist þó hinn hjálplegasti og við komumst að lokum í réttu rútuna og á farfuglaheimilið eftir nokkrar sviptingar í umferðinni.
Næsta dag hófst ferðin á Eiffel-turninum sem gnæfir yfir borgina og er helsta kennileiti hennar. Veðrið var frábært og útsýnið stórkostlegt. Eftir hádegi var gengið um Champs Élysées með Sigurbogann við enda hennar og um kvöldið fóru flestir á Parc des Princes þar sem Evrópumeistarar PSG gerðu jafntefli við Strasbourg í afar skemmtilegum leik.
Daginn eftir lá leiðin í Louvre-safnið og var stefnan tekin á Mónu Lísu. Eftir safnið var gengið um Tuileries-garðinn og að Concorde-torginu þar sem Lúðvík XVI og Marie Antoinette voru leidd undir fallöxina. Síðdegis var farið á Pompidou-svæðið og kvöldið endaði á rómantískri siglingu á Signu þar sem Eiffel-turninn glitraði í ljósadýrð.
Sunnudagurinn var tileinkaður Sainte-Chapelle og Notre Dame, þar sem mannfjöldinn var mikill og biðin löng. Í staðinn var gengið um Latínuhverfið, Sorbonne og Lúxemborgargarðinn. Síðdegis lá leiðin upp í Montmartre þar sem Sacré Coeur trónir yfir borginni og útsýnið er engu líkt.
Um kvöldið var hátíðarkvöldverður á crêpe-veitingahúsinu P’tit Breton og morguninn eftir var nýttur til verslunar í Galleries Lafayette áður en hópurinn hélt heim. Á flugvellinum hittum við Arsène Wenger, fyrrverandi þjálfara Arsenal, sem setti skemmtilegan punkt við viðburðaríka og eftirminnilega Parísarferð.
Örn Þór Emilsson, frönskukennari og fararstjóri