Stefán Óli Jónsson oddadómari úrslitaviðureignarinnar tilkynnir úrslit kvöldsins. Skjáskot
Stefán Óli Jónsson oddadómari úrslitaviðureignarinnar tilkynnir úrslit kvöldsins. Skjáskot

Lið MA og MR mættust í úrslitum MORFÍs, Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna, í gærkvöld. Úrslitaviðureignin fór fram í Háskólabíói og var hún í senn löng og söguleg. Ekki aðeins voru skólarnir tveir að mætast í fyrsta skipti í úrslitum keppninnar heldur og hlaut sigurliðið færri stig en andstæðingurinn.

Skólarnir tveir tókust á um hvort Sameinuðu þjóðirnar standi undir nafni eða ekki. Menntaskólinn á Akureyri tók upp hanskann fyrir SÞ og hafði fleiri stig upp úr krafsinu en lið MR eftir langa og stranga keppni. Engu að síður var Menntaskólanum í Reykjavík dæmdur sigur þar sem mat þriggja dómara af fimm var að MR hefði staðið sig betur í rimmunni.

Jóhannes Óli Sveinsson, Krista Sól Guðjónsdóttir, Malín Marta Eyfjörð og Þröstur Ingvarsson skipuðu lið MA í gær. Þjálfarar liðsins eru þau Embla Kristín Blöndal, Laufey Lind Ingibergsdóttir og Magnús Orri Aðalsteinsson.

Í lokin varð liðið sem vann sér inn fleiri stig í keppninni að gera sér annað sæti að góðu. Svo lítill var munurinn. Sannarlega glæsileg frammistaða hjá okkar fólki í Háskólabíói í gær.