Liðsmenn og þjálfarar eftir sigurinn gegn Flensborg. Frá vinstri: Ingvar, Friðrik, Laufey, Sveinn, T…
Liðsmenn og þjálfarar eftir sigurinn gegn Flensborg. Frá vinstri: Ingvar, Friðrik, Laufey, Sveinn, Tómas (á tölvuskjánum), Magnús, Rakel

Lið Menntaskólans á Akureyri er komið í undanúrslit í MORFÍS, Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna. Liðið hafði betur í viðureign sinni gegn liði Flensborgarskólans í gær. Keppt var í Kvosinni.

Lið MA skipa: Friðrik Snær Björnsson, meðmælandi. Friðrik var staðgengill Sveins Áka Ólafssonar sem var erlendis á meðan undirbúningi fyrir rimmuna gegn Flensborg stóð. Laufey Lind Ingibergsdóttir, liðsstjóri. Magnús Orri Aðalsteinsson, frummælandi. Rakel Anna Boulter, stuðningsmaður. Þjálfarar eru Ingvar Þóroddsson og Tómas Bjarnason.

Umræðuefnið var „þrælar“. MA færði rök á móti en Flensborg með. Heildarstig í keppninni voru 2768 og refsistig engin. Sigur MA var nokkuð öruggur en 78 stigum munaði í lokin. Ræðumaður kvöldsins var Rakel Anna Boulter. Hún hlaut samtals 542 stig, 41 stigi meira en næsti ræðumaður.

Dómarar voru Anton Björn Helgason, Huginn Sær Grímsson og Sólborg Guðbrandsdóttir.

Glæsileg frammistaða hjá ræðuliði MA. Við óskum liðinu til hamingju og góðs gengis í undanúrslitum MORFÍS 2019. Áfram MA!