Lið Menntaskólans á Akureyri er komið áfram í undanúrslit Gettu betur eftir sigur á liði Fjölbrautaskólans í Breiðholti 41 - 26 í síðustu viðureign 8 liða úrslita og keppir því ásamt Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, Kvennaskólanum og Menntaskólanum í Reykjavík í undanúrslitum sem fara fram í næstu viku.

 

Þó nokkru munaði á liðunum eftir hraðaspurningarnar en lið MA náði 22 stigum í hraðanum og lið FB 13. Bilið breikkaði þegar leið á bjölluspurningarnar og var sigur MA aldrei í hættu. Fjölbrautaskólinn í Breiðholti átti þó góðan endasprett, náði sex stigum út úr síðustu tveimur spurningunum og endaði með 26 stig á móti 41 stigi MA.

Dregið var í viðureignir undanúrslita í kvöld. Lið Menntaskólans í Reykjavík dróst á móti liði Kvennaskólans og keppir fimmtudaginn 15. mars nk. og lið Menntaskólans á Akureyri mætir liði Fjölbrautaskólans í Garðabæ þann 16. mars.  Úrslitaviðureignin fer fram í beinni útsendingu frá Háskólabíó föstudaginn 23. mars.

(Frétt af vef RÚV, mynd skjáskot af RÚV)