Íþróttavika Evrópu, sem haldin er árlega í yfir 30 Evrópulöndum vikuna 23. - 30. september, var sett á laggirnar árið 2015 af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins undir slagorðinu #BeActicve.

Markmið íþróttavikunnar er að hvetja fólk á öllum aldri, og úr öllum samfélagshópum, til að taka þátt í hreyfingu - hvort sem er í íþróttum, leik, daglegri hreyfingu eða skipulögðum viðburðum. Í gegnum árin hefur Íþróttavika Evrópu vaxið ört og nær nú til 42 landa með þúsundum viðburða og milljóna þátttakenda ár hvert. Þetta kemur fram á heimasíðu ÍSÍ.

Haldið hefur verið upp á íþróttavikuna í MA með ýmsum hætti í gegnum árin. Stundum hafa komið fyrirlesarar í heimsókn, undirfélög Hugins verið með viðburði, íþróttakennarnir kynnt allskyns íþróttir og svo framvegis. Árið í ár er engin undantekning og dagskráin jafnvel enn ríkulegri en áður þar sem tækifærið er einnig notað til að fagna því að 120 ár eru síðan að íþróttahús MA, sem jafnan er kallað Fjósið, var tekið í notkun. 

Undirbúningur íþróttavikunnar í MA hefur verið í höndum íþróttakennaranna, Guðrúnar Helgu Kristjánsdóttur, Hólmfríðar Jóhannsdóttur, Ingibjargar Magnúsdóttur, Unnars Vilhjálmssonar og stjórnar ÍMA, íþróttafélags MA. Stærstu viðburðirnir þessu sinni eru MA-leikar og Brunnárhlaupið. Auk þess verður dans í Kvosinni í umsjón dansfélagsins PriMA og ÍMA stendur fyrir Stinger keppni og sitthvað fleira. Hægt er að skoða dagskrána hér.