Karl Frímannsson skólameistari MA setur skólann
Karl Frímannsson skólameistari MA setur skólann

Menntaskólinn á Akureyri var settur í morgun í 144. sinn, að viðstöddu miklu fjölmenni eins og oft áður. Nemendur fluttu tónlist við upphaf og lok skólasetningar. Skólameistari flutti ávarp, bauð nýnema sérstaklega velkomna og áréttaði ábyrgð nemenda á eigin námi, eigin gleði og eigin árangri. Hann hvatti þau til að nýta kennslustundir til náms á metnaðarfullan hátt og það væri ekki hlutverk kennara að fylgjast með því að hálffullorðið fólk væri í símunum sínum, það ætti að vera hagur nemenda sjálfra að læra í kennslustundum. Hann ræddi einnig um vímuefnalaust félagslíf og hrósaði nemendum og stjórn skólafélagsins fyrir metnað í félagslífi. Hann brýndi okkur öll einnig á að vanda málfar okkar og nota íslensku.

Að lokinni skólasetningu hittu nemendur í 1. og 2. bekk umsjónarkennara sína en forráðafólk nemenda sat áfram í Kvosinni á kynningarfundi þar sem m.a. var fjallað um námið í 1. bekk, stoðþjónustuna sem er í boði, sagt frá svefnrannsókn sem fer nú fram annað árið í röð og aðeins farið yfir helstu niðurstöður frá niðurstöðum rannsóknarinnar í fyrra. Starf foreldrafélagins var kynnt og að lokum fór Krista Sól Guðjónsdóttir forseti Hugins yfir hvað framundan er í nýnemamóttökunni og ítrekaði að móttakan væri til þess að bjóða nýnema velkomna í MA. Þetta var því býsna efnismikill foreldrafundur og við erum þakklát þeim foreldrum sem höfðu tök á því að sækja hann.

Alls eru 580 nemendur skráðir í skólann og þar af tæplega 190 nemendur á fyrsta ári í 7 bekkjum. Kennsla hefst í fyrramálið en hún verður þó aðeins slitrótt fyrstu dagana vegna nýnemamóttöku. Kl. 14 á morgun fara nýnemar á ýmsar stöðvar sem 3. bekkingar sjá um. Það verða fjölbreytt atriði tekin fyrir á þessum stöðvun, allt frá því að læra ýmis MA-lög eins og Hesta-Jóa og fara yfir flokkun sorps. Stjórn skólafélagsins og stjórnir undirfélaga bjóða svo nýnemum í göngu um bæinn eftir hádegi á miðvikudaginn og kynna þeim starfsemi undirfélaganna í leiðinni. Á fimmtudagskvöldið verður lokahnykkur nýnemamóttökunnar, danskeppni og nýnemaball.