Mars Proppé hélt aðalerindið á Menntabúðum
Mars Proppé hélt aðalerindið á Menntabúðum

Föstudaginn 22. apríl voru haldnar í MA sameiginlegar menntabúðir allra framhaldsskóla á Norðausturlandi. Fyrst var aðalerindi sem kallaðist „Hinsegin ungmenni í skólakerfinu – hvernig er staðan og hvað getum við gert betur?“. Erindið hélt Mars Proppé á vegum Samtakanna ´78. Að því loknu tóku við málstofur þar var hægt að velja á milli eftirfarandi efna: Snjallvefjan – hjálparsíða fyrir nemendur með námsörðugleika, Myndbandagerð – frumskógur klippiforrita, Canva – hönnunarforrit, Kynheilbrigði: Kynlíf, klám og kærleikur og Samvinna skóla og atvinnulífs.

Menntabúðir í MA eru orðnar fastur liður í starfinu. Þær eru haldnar 5-6 sinnum á vetri, sumar eru eingöngu fyrir starfsfólk skólans, aðrar eru sameiginlegar með öðrum skólum auk þess sem reynt er að halda nemendastýrðar menntabúðir einu sinni á ári sem eru opnar  öllu starfsfólki og nemendum í skólanum.

Menntabúðir sem þessar eru nauðsynlegur vettvangur til að fræðast og ræða um málefni líðandi stundar í skólamálum. Sameiginlegar menntabúðir sem þessar skapa einnig rými til samráðs á milli skólanna á svæðinu.

Anna Eyfjörð