- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Kvosin var þétt setin í morgun við setningu Menntaskólans á Akureyri. Nemendur eru alls 590 þetta skólaárið og þar af eru nýnemar hátt á þriðja hundrað talsins. Dagskrá hófst með því að skólameistari Karl Frímannsson bauð gesti velkomna áður en Hjördís Inga Garðarsdóttir nemandi í 3. bekk steig á stokk og söng Piano Man eftir Billy Joel. Lagið flutti hún við undirleik Írisar Ísafoldar Sigurbjartsdóttur nemanda á öðru ári sem samtímis blés í munnhörpu og sló hina fögru tóna Billy Joel á píanó. Afskaplega skemmtilegur flutningur hjá þeim stöllum. Tónninn var sleginn. Því næst tók skólameistari til máls.
Karl kom víða við í ræðu sinni. Hann byrjaði á því að minna á hlutverk skólans, sýn og gildi. Hann sagði það vera megin hlutverk þeirra sem starfa í skólanum að hjálpa nemendum að verða góðir námsmenn og farsælar menneskjur. Enn fremur sagði hann það vera einlæga trú starfsfólks að allir nemendur gætu lært og tekið framförum „þar sem virðing, bjartsýni og seigla eru leiðarljósin svo hver og einn nái þeim árangri sem stefnt er að“.
Karl sagði frá fyrirhuguðum breytingum á skólastarfinu sem byggja á tillögu kennara og stjórnenda frá síðasta skólaári. Breytingunum er ætlað að bæta námsumhverfið í skólanum með því að auka ábyrgð nemenda á eigin námi, hafa námið nemendastýrðara og auka sveigjanleika í skólastarfinu. Þessi nýja nálgun mun birtast nemendum m.a. í breytingum á stundaskrá og markvissari vinnu við gerð vikuáætlana svo eitthvað sé nefnt. Karl sagði áskoranir fylgja nýjum áherslum en beindi orðum sínum sérstaklega til nemenda þegar hann sagði „...ég hef fulla trú á því að nýtt fyrirkomulag bæti nám ykkar og verði ykkur til góðs“.
Karl kynnti nýja braut við skólann til sögunnar, svokallaða íslenskubrú. Hún er ætluð nemendum af erlendum uppruna sem ekki hafa náð tökum á tungumálinu. Stefnt er að því að nemendur á íslenskubrú hafi í kjölfarið tök á því hefja nám við aðrar námsbrautir í MA sem og annars staðar. Þá kom Karl inn á kosti og galla gervigreindar. Hann brýndi fyrir nemendum að varast freistingarnar sem fylgja notkun á henni í námi á kostnað raunverulegs náms en hvatti þá jafnframt til að nota gervigreindina til að „hjálpa ykkur að læra og menntast því menntun á að auka hæfni okkar til að verða nýtir samfélagsþegnar og gera heiminum gagn“. Að lokum minnti Karl nemendur á gildi þess að passa upp á íslenskuna sem tungumál, að nota hana til alls og gefa engan afslátt þar að lútandi.
Þær Hjördís Inga og Íris Ísafold fluttu lagið Undir þínum áhrifum eftir Stefán Hilmarsson og Guðmund Jónsson áður en Karl setti skólann í 146. sinn með formlegum hætti. Að lokinni skólasetningu fóru þær Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir aðstoðarskólameistari og brautarstjórarnir Valdís Björk Þorsteinsdóttir og Alma Oddgeirsdóttir yfir nokkur praktísk atriði í skólabyrjun. Þá kynnti Kristín Elva Viðarsdóttir skólasálfræðingur stoðteymið fyrir nýjum nemendum og forráðafólki. Áður en yfir lauk hittust nemendur og umsjónarkennarar í 1. og 2. bekk í kennslustofum á meðan forráðafólk nemenda sat kynningarfund.
Við hlökkum til að takast á við verkefni vetrarins. Gleðilegt nýtt skólaár.