Fyrr á árum tíðkuðust svokölluð Matthíasarfrí í MA
Fyrr á árum tíðkuðust svokölluð Matthíasarfrí í MA

Í dag er stór dagur í sögu Menntaskólans á Akureyri. Á ellefta degi nóvembermánaðar hefur þess gjarnan verið minnst innan veggja skólans að árið 1880 hófst skólahald í gagnfræðaskóla í Hörgárdal og árið 1930 breyttist hlutverk skólans þegar MA tók til starfa. Eftir að skólabyggingin á Möðruvöllum brann árið 1902 var skólahald fært í tímabundið húsnæði á Akureyri þar til Menntaskólinn á Akureyri (Gamli skóli) var tekinn í gagnið árið 1904.

En hvers vegna eru atburðir sem þessir eyrnamerktir þessum tiltekna degi? Fyrir margt löngu voru ræddar hugmyndir um hvaða dagur skólaársins væri best til þess fallinn að minnast þessara merkilegu atburða ár hvert. Fyrir valinu varð 11. nóvember, fæðingardagur sr. Matthíasar Jochumssonar. Matthías tengdist gagnfræðaskólanum á Möðruvöllum órjúfanlegum böndum en þó enn frekar eftir að skólahald var fært til Akureyrar. Matthías var tíður gestur í Gamla skóla. Ýmist kom hann til að halda fyrirlestra, spjalla við nemendur eða hitta vini sína í kennarastéttinni. Þá orti hann ljóð um skólann.

Á fyrri hluta 20. aldar tíðkuðust svokölluð „mánaðarfrí“ í skólum. Í MA tengdist fríið minningunni um Matthías og var þá talað um Matthíasarfrí. Eftir að mánaðarlangt frí var tekið af dagskrá síðar hélt skólinn áfram að gefa nemendum frí í nafni Matthíasar en þó aðeins í einn dag – 11. nóvember. Allmörg ár eru liðin frá því að sá siður leið undir lok. Dæmi eru þó um mánaðarlangt Matthíasarfrí í MA eftir að tími þess var liðinn eins og skrif nemanda skólans frá árinu 1959 gefa til kynna.

Hér má lesa fyrrnefnda frásögn nemandans frá árinu 1959.