Frá danssýningu í Kvosinni
Frá danssýningu í Kvosinni

Fyrstu skólavikunni er nú lokið og fer skólastarfið vel af stað. Ríflega 190 nýnemar hófu nám í 1. bekk nú í vikunni. Móttaka nýnema er hvorttveggja í höndum nemenda og kennara; skólafélagið skipulagði dagskrá fyrir nýnema í lok skóladags frá miðvikudegi til föstudags. Farið var í ratleik um skólann, gönguferð um bæinn, helstu lög MA-inga æfð og hápunkturinn var svo danssýning í Kvosinni. Þar sýnir hver 1. bekkur dans- og skemmtiatriði sem jafnframt er keppni milli bekkja. Sigurvegari að þessu sinni var 1F. Þann 5. september verður síðan nýnemaball haldið í Kvosinni.

Í áföngunum menningar- og náttúrulæsi fara nemendur í gönguferð um skólann í fyrstu vikunni og kynnast húsum hans og starfsfólki og í nýnemafræðslunni er áhersla á að nemendur kynnist hver öðrum í nýjum bekk sem fyrst og læra að þekkja skólann, reglur og vinnubrögð sem best. Vonandi eru því nýnemarnir allir orðnir heimavanir í skólanum og tilbúnir að takast á við nýtt og spennandi skólaár.