Ritstjórn Munins skólaárið 2018-2019
Ritstjórn Munins skólaárið 2018-2019

Vorútgáfa Munins kemur út fimmtudaginn 9. maí. Fyrstu eintök af hinu gamlagróna skólablaði, sem á rætur sínar að rekja til ársins 1927, verða afhent í Kvosinni kl. 9:40. Efnistök eru fjölbreytt að vanda, smásögur, myndaþáttur, kennarapróf, góð ráð frá nemendum og margt fleira.

Að sögn Dagnýjar Þóru Óskarsdóttur, en hún situr í ritstjórn blaðsins, eru verkefnin sem fylgja útgáfu skólablaðs mjög fjölbreytt. Vinnan við blaðið hófst í byrjun vorannar. Lagt var upp með ákveðna hugmyndavinnu áður en farið var í einstök verkefni svo sem að afla efnis fyrir blaðið og selja auglýsingar. „Síðan reynum við að skila af okkur blaðsíðum jafnt og þétt yfir önnina en mesta vinnan er klárlega síðustu tvær vikur fyrir skil til prentsmiðjunnar“ segir Dagný.

Dagný segir hugmyndavinnuna seint ofmetinn þátt við útgáfu á slíku blaði. Hún álítur mikilvægt að reyna að hafa eitthvað í boði fyrir alla og leyfa sem fjölbreyttustum hópi að koma fram í blaðinu. Reynt sé að stuðla að því með innsendum greinum, teikningum, ljóðum o.s.frv. Þegar búið sé að koma hugmyndum niður á blað þurfi að framkvæma þær og taka myndir. Þá sé unnið úr öllum myndum í sérstöku forriti og hið sama eigi við um sérhverja blaðsíðu í blaðinu. Allt þurfi að vinna þannig að framsetning samræmist nútímakröfum. Að lokum séu allar blaðsíðurnar settar upp í sama skjalið sem að lokum fari til prentsmiðju, tilbúið til prentunar. „Muninn er skólablað allra nemenda í Menntaskólanum á Akureyri og lifir um ókomin ár og því mikilvægt að fanga vel skólalífið og stemminguna í skólanum þá stundina“ segir Dagný að lokum.

Eftirtaldir sitja í ritstjórn á yfirstandandi skólaári og bera því hitann og þungann af útgáfu nýja tölublaðsins:

Ásthildur Ómarsdóttir ritstýra
Agla Sölvadóttir samfélagsmiðlastýra
Amanda Guðrún Bjarnadóttir greinastýra
Dagný Þóra Óskarsdóttir ritari
Elísabet Jónsdóttir gjaldkeri
Jörundur Guðni Sigurbjörnsson viðburðarstjóri
Magdalena Sigurðardóttir vefstýra
María Hafþórsdóttir auglýsingastýra
Ragnheiður Rós Friðleifsdóttir uppsetningarstýra.