Hópurinn sem hélt til Parísar, við Notre Dame
Hópurinn sem hélt til Parísar, við Notre Dame

Þrír hópar nemenda héldu fyrir nokkru til þriggja borga, Berlínar, Lundúna og Parísar, ásamt kennurum sínum. Ferðirnar eru hluti af valáföngum sem snúast um viðkomandi borgir. Nemendur undirbúa sig með því að kynna sér sögu og staði borgarinnar og heimsækja ýmsa merkisstaði þegar út er komið. Kennarar áfanganna eru Anna Eyfjörð, Ágústína Gunnarsdóttir og Sigrún Aðalgeirsdóttir.

Ferðin út gekk þó ekki með öllu áfallalaust. Brottför átti að vera fimmtudaginn 19. október en vegna slæmrar veðurspár var rútuferðinni suður flýtt. Þegar hóparnir voru komnir langleiðina suður fengu þeir þær fréttir að öllu flugi daginn eftir hefði verið aflýst. Nemendur þurftu því að finna sér í snarhasti gistingu í Reykjavík og bíða mislengi í borginni eftir því að komast á áfangastað. Berlínarfarar komust í flug að morgni 20. október, Lundúnafarar síðdegis sama dag en Parísarfarar ekki fyrr en laugardaginn 21. október. Það reyndi því mikið á kennarana að breyta skipulagi og nemendur að bregðast við óvæntum aðstæðum. Hóparnir sameinuðust um að gera eins gott úr þessu og hægt var og tóku öllu af æðruleysi – enda ekki hægt að stjórna veðrinu. Ferðirnar gengu svo vel þegar út var komið, hægt að skoða mest af því sem áætlað var en þó auðvitað ekki allt, og heimferðin eins og í sögu.