Tilbúnar í Örlygsstaðabardaga! (1238)
Tilbúnar í Örlygsstaðabardaga! (1238)

 Nám fer líka fram utan hefðbundinnar kennslustofu og kennarar eru duglegir við að fara fjölbreyttar leiðir til dæmis með vettvangs- og námsferðum. Nemendur hafa sannarlega verið á faraldsfæti nú þegar styttist í kennslulok. Fyrstu bekkingar í TUV heimsóttu Siglufjörð ásamt kennurum sínum í menningarlæsi. Þar var meðal annars farið á Síldarminjasafnið og Þjóðlagasetrið, auk þess sem nemendur tóku þátt í ratleik um bæinn. Nestispásan var tekin á loftinu í Siglufjarðarkirkju.

Nemendur í 1. FGHL fóru í Mývatnssveit ásamt kennurum í náttúrulæsi. Á meðal áfangastaða voru Hverfjall, Grjótagjá, Dimmuborgir og Fuglasafn Sigurgeirs. Eftir heimsókn að Skútustaðagígum var snætt í Skjólbrekku. Ferðin gekk vel og var veður með besta móti fyrir gönguferðir og útiveru í ævintýralegri náttúrunni.

Íslenskunemendur í 2. bekk ljúka nú við lestur sögulegu skáldsögunnar Óvinafagnaður eftir Einar Kárason. Það lá því beinast við að gera sér ferð á Sturlungaslóðir í Skagafirði ásamt kennurum. Á dagskrá var heimsókn í Kakalaskála þar sem sögu- og listasýning er uppi um átakatíma 13. aldar. Þá var byggðasafnið að Glaumbæ skoðað og gamli torfbærinn og því næst sögusetrið 1238 á Sauðárkróki, þar sem nemendur fengu meðal annars að taka þátt í Örlygsstaðabardaga í gegnum sýndarveruleika.