Mánudaginn 6. mars var haldið „hraðstefnumót“ í áfanganum Lönd og menning en það er séráfangi á mála- og menningarbraut þar sem nemendur fá innsýn í menningu og mannlíf í löndum Evrópu.

Anna Eyfjörð og Rannveig Ármannsdóttir kenna áfangann.

,,Í þessu verkefni bjóðum við gestum frá hinum ýmsu Evrópulöndum til okkar. Að þessu sinni fengum við skiptinema sem nú stunda nám í HA, MA og VMA og voru gestirnir í ár frá Grikklandi, Belgíu, Danmörku, Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi, og Sviss. Nemendur undirbúa sig með því að velja sér þema og semja nokkrar spurningar út frá því. Sett eru upp borð þar sem gestirnir koma sér fyrir og svo fá nemendur fjórar mínútur með hverjum gest, þau færa sig svo á næsta borð þegar bjöllu er hringt. Þannig nýta þau gestina sem heimildir í verkefninu sínu. Nemendur skrifa svo verkefni að hraðstefnumótinu loknu þar sem þau gera samanburð á milli landanna sjö og einnig við það sem þau þekkja frá Íslandi. Með þessu gefst nemendum tækifæri á að víkka sjóndeildarhringinn og sjá að þær hefðir og venjur sem þau hafa alist upp við eru ekki endilega eins um alla Evrópu.

Til að þakka gestunum fyrir komuna og aðstoðina lýkur hraðstefnumótinu alltaf með smá kaffiboði þar sem boðið er upp á íslenskar kræsingar s.s. skyrtertur og flatbrauð með hangikjöti. Öll skemmtu sér vel og veitingarnar runnu ljúflega niður í gesti jafnt sem nemendur."

Anna Eyfjörð