Nemendur á þriðja ári kynntu fjölbreytt lokaverkefni á ráðstefnu mála- og menningarbrautar
Nemendur á þriðja ári kynntu fjölbreytt lokaverkefni á ráðstefnu mála- og menningarbrautar

Þann 2. maí sl var blásið til ráðstefnu á mála- og menningarbraut MA  þar sem nemendur á þriðja ári kynntu lokaverkefnin sín. Boðið var upp á veitingar og sannkallaða veislu þegar gestir hlýddu á og skoðuðu uppskeru í lokaverkefnisáfanganum. Verkefnin voru sannarlega fjölbreytt í ár og skiluðu nemendur bæði fræðilegum hluta og skapandi verkefni. Eldsvoðinn mikli í Chicago 1871 var einum nemanda innblástur sem skilaði ritgerð og líkani af borgarhlutanum sem brann. Tveir nemendur báru saman unglingamenningu í Danmörku og á Íslandi og fóru svo yfir helstu niðurstöður í hlaðvarpsþætti. Fleiri hlaðvörp fæddust í áfanganum m.a. um rafmyntina Bitcoin og Sykes-Picot samkomulagið. Ungskáld voru eitt viðfangsefna, þar leitaði nemandi uppi efnilegustu ungskáldin og skilaði inn fallega myndskreyttu ljóðasafni með bestu verkum nokkurra efnilegra skálda. Meðal annarra viðfangsefna sem kynnt voru þennan góða dag voru uppruni unglingamenningar á Íslandi, norskur búnaður, töfraraunsæi, vistvænar húsbyggingar, leitin að hamingjunni, álitamál við þýðingu á Ávaxtakörfunni yfir á dönsku, hugmyndalist, klassísk tónlist, Margrét Þórhildur Danadrottning, Dirndl, Crossfit og menningasuðupotturinn Miami. Og þá er ekki allt upptalið. Ekki er ólíklegt að einhver þessara verkefna verði til sýnis á opnu húsi MA sem er fastur liður á brautskráningardaginn 17. júní.

Hildur Hauksdóttir.