Nemendur á Síldarminjasafninu
Nemendur á Síldarminjasafninu

Menningarlæsið fór til Siglufjarðar mánudaginn 1. október síðastliðinn. Bekkirnir sem fóru voru 1.AF, 1.G, 1.H og 1.L. Við fengum fallegan haustdag á Sigló, það var nokkuð kalt en haustlitirnir nutu sín, og það sama má segja um nemendur. Þau voru athugul, spurðu skemmtilegra spurninga og voru skólanum almennt til prýði.

Nemendur fóru á fjórar stöðvar fyrir hádegi, þær voru Róaldsbrakki og Bátahúsið, Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar og líftæknifyrirtækið Genis. Ferðin var því nokkuð fjölbreytt, nemendur kynntust langspili og íslenskri fiðlu undir leiðsögn Gunnsteins Ólafssonar tónlistarmanns, sáu hvernig hægt er að framleiða fæðubótaefni úr rækjuskel í Genis og fengu nasaþefinn af því hvernig lífið var þegar síldin mokveiddist á Síldarminjasafninu.

Í hádeginu fengum við afnot af kirkjulofti safnaðarheimilisins eins og undanfarin ár. Þar er alltaf gott að eiga notalega stund og við þökkum sr. Sigurði Ægissyni gestrisnina. Í stuttu máli gekk ferðin vel, veðrið var spaklegt, heimamenn tóku höfðinglega á móti okkur og nemendur jafnt sem kennarar nutu tilbreytingarinnar frá kennslustofunni.

Aðalbjörg, Anna Sigga, Arnrún og Þórhildur, kennarar í menningarlæsi.

Fleiri myndir úr ferðinni má finna á Facebooksíðu skólans.