- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Fríður hópur nemenda úr 2. bekk fór í sögugöngu í dag í fylgd Brynjars Karls Óttarssonar sögukennara. Farið var á hernámsslóðir í Eyjafjarðarsveit í blíðskaparveðri. Fyrsti viðkomustaður var við félagsheimilið Laugarborg þar sem gengið var í fótspor Helen J. Armstrong og annarra amerískra og breskra hjúkrunarkvenna á herspítalasvæðinu á Hrafnagili. Þaðan hélt hópurinn áfram í suðurátt, alla leið að Melgerðismelum. Þar skoðuðu nemendur og kennari sig um á slóðum breskra og amerískra flugmanna en saga ungs bandarísks flugmanns, John Kassos, var þar í aðalhlutverki. Hópurinn hefur síðustu vikur fengið fræðslu í sögutímum um starfsemina á Hrafnagili og Melgerðismelum á árum seinni heimsstyrjaldar og kynnst sögu fyrrnefndra Helen og John.
Miklar framkvæmdir eru og hafa verið á Hrafnagili og lítið eftir sem minnir á þau miklu umsvif sem þar voru fyrir rúmum 80 árum síðan. Þannig er þrengt að sýnilegum stríðsminjum á svæðinu og mögulega öðrum sem leynast í jörðu. Hópur áhugasamra einstaklinga um varðveislu minja er og hefur verið undanfarin ár í kappi við tímann við að bjarga munum sem fundist hafa undir grænni torfu og tilheyrðu herspítalanum á Hrafnagili. Í aðdraganda sögugöngunnar í dag fengu krakkarnir að skoða og handleika nokkra vel valda gripi úr fórum starfsfólks breska og bandaríska hersins sem fundist hafa á staðnum. Má þar nefna diska, bolla, skálar, hnífapör, penna, tannbursta, borðtenniskúlu, varalit og Kók-flösku svo eitthvað sé nefnt. Hér má sjá stutt myndband sem sýnir bolla sem fannst á Hrafnagili. Ætli Helen Armstrong hafi drukkið kaffi úr bollanum? Með því að smella hér má sjá myndskeið sem sýnir matarílát sem fannst á Melgerðismelum. Kannski var það í eigu John Kassos.
Hópurinn stefnir á aðra sögugöngu áður en vetur skellur á. Þá verður farið á slóðir norskrar skíðaherdeildar í Hlíðarfjalli.