Líf og fjör á Hlíð
Líf og fjör á Hlíð

Nemendur í 1. bekk á sviðslistabraut heimsóttu hjúkrunarheimilið Hlíð í dag og skemmtu heimilisfólki með leik og söng. Að sögn Maríu Pálsdóttur leiklistarkennara var heimsókn þeirra á Hlíð, hluti af námi í áfanganum Senuvinna og samfélagsleikhús. Í honum vinna nemendur með senur á þrjá mismunandi vegu; úr leikriti, út frá eigin spuna og eftir spjall við heldri borgara á Hlíð. Sá hluti snýr að  samfélagsleikhúsi þar sem kenningar brasilíska leikhúsmannsins og aðgerðarsinnans Augusto Boal voru hafðar að leiðarljósi. Krakkarnir heimsóttu Hlíð tvisvar eftir páska og áttu þá gott spjall við heimilisfólk. Samtöl þeirra urðu kveikjan að senum sem þau sömdu og útfærðu sjálf og afrakstur þeirrar vinnu sýndu nemendur í dag. Senurnar fjölluðu m.a. um ævintýri í sveitinni, hernámið, fermingar, ofgnótt nútímans, sundferðir, minningar og skipskaða. Þarna gafst krökkunum kjörið tækifæri til að láta ljós sitt skína og koma fram annars staðar en á fjölum skólans. Fjölmennt var í salnum á meðan krakkarnir tróðu upp, jafnt heimilisfólk sem starfsfólk Hlíðar sem og nokkrir starfsmenn MA.