Áhugasamir nemendur á Vestnorden
Áhugasamir nemendur á Vestnorden

Í síðustu viku var nemendum í ferðamálaáföngunum í MA boðið að kynna sér Vestnorden ferðakaupstefnuna sem haldin var í Íþróttahöllinni á Akureyri.

Á ferðakaupstefnunni kynna ferðaþjónustuaðilar frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi þjónustu sína og þangað mæta ferðaþjónustuaðilar frá öllum heimshornum til að skoða framboðið og gera samninga. Ferðakaupstefnan er eingöngu ætluð þeim sem eru að bjóða fram eða kaupa þjónustu og því var gaman að fá að sjá hvernig þetta virkar. Starfsfólk Íslandsstofu tók á móti hópnum og vísaði upp í stúku þar sem vel sást yfir salinn. Þar sögðu þau frá Vestnorden og fleiru í tengslum við ferðamennsku á Íslandi. Að því loknu fékk hópurinn að ganga um salinn en þess þurfti auðvitað að gæta að trufla ekki þá sem voru að spjalla og semja, enda margir komnir langan veg til þess. Sigrún Aðalgeirsdóttir, kennari í ferðamálafræði, tók myndirnar.

Starfsfólk Íslandsstofu tók á móti hópnum