Nemendur leggja úr höfn á Hjalteyri í fylgd öryggisvarða frá Siglingaklúbbnum Nökkva. Mynd:Alfreð St…
Nemendur leggja úr höfn á Hjalteyri í fylgd öryggisvarða frá Siglingaklúbbnum Nökkva. Mynd:Alfreð Steinmar Hjaltason

 

Nú styttist í að fjársöfnun nemenda í MA til styrktar göngudeild SÁÁ á Akureyri ljúki. Þó góðgerðavika með tilheyrandi söfnun áheita hafi lokið um nýliðna helgi, freista nemendur þess að ná settu marki sem upphaflega var bundið við eina milljón króna.

Samkvæmt upplýsingum ma.is hafa nemendur safnað tæplega 900.000 krónum þegar þessi orð eru skrifuð. Nemendur róa nú lífróður til að ná settu marki með því að róa árabát frá Hjalteyri til Akureyrar. Þrettán nemendur lögðu af stað frá Hjalteyri snemma í morgun í fylgd þriggja reynslubolta frá Siglingaklúbbnum Nökkva á Akureyri. Hlutverk þeirra er að tryggja að allir komist heim heilu og höldnu úr róðrinum. Aðstæður til siglingar eru góðar.

Áætlað er að koma í land við miðstöð Nökkva á Pollinum um kl. 13:30-14:00. Að sögn Alfreðs Steinmars Hjaltasonar, en hann er í hópi ræðara, munu bátsverjar gefa hverjum og einum sem tekur á móti þeim við komuna til Akureyrar kassa af koffíndrykknum Nocco.

Enn er hægt að veita söfnuninni lið og aðstoða þannig nemendur við að klífa milljón króna múrinn. Hver fer þó að verða síðastur því hér er líklega um síðasta framlag nemenda að ræða í góðgerðarviku þessa árs.

Kt: 4709972229
Rnr: 0162-15-382074
Kass: 690 55017
Aur: 123 690 5017

Hér má fylgjast með beinni útsendingu frá róðrinum.