Halldóra Arnardóttir á spjalli við nemendur
Halldóra Arnardóttir á spjalli við nemendur

Stór hópur nemenda heimsótti Listasafnið á Akureyri í vikunni í fylgd kennara. Heimsóknin er hluti af námi í menningarlæsi á fyrsta ári. Tilgangur heimsóknarinnar var að gefa krökkunum færi á að sjá og upplifa sýningar á safninu, ekki síst yfirlitssýningu á verkum listamannsins Arnar Inga Gíslasonar (1945-2017), Lífið er LEIK-fimi.

Guðrún Pálína Guðmundsdóttir og Heiða Björk Vilhjálmsdóttir tóku á móti hópnum áður en haldið var inn í sýningarsalinn. Þar ræddi Halldóra Arnardóttir sýningarstjóri við nemendur. Hún talaði um listamanninn, listsköpun hans og sýninguna. Að því loknu fengu gestirnir úr MA að rölta um sýningarsvæðið og skoða verk listamannsins sem skipta hundruðum ásamt því að ræða við Halldóru um einstök verk.

Sumir notuðu einnig tækifærið og skoðuðu aðrar sýningar á Listasafninu. Eftir góð kynni við fjölbreytt listaverkin á sýningunni tylltu nemendur sér niður á Gil kaffihúsi og nutu veitinga. Góðu stefnumóti við menninguna lauk með kakóbolla og súkkulaðibitaköku.

Hér má sjá myndir frá heimsókninni.