Nemendur í ferðamálafræði í rútu áður en lagt var af stað frá Akureyri. Myndina tók Anna Eyfjörð Eir…
Nemendur í ferðamálafræði í rútu áður en lagt var af stað frá Akureyri. Myndina tók Anna Eyfjörð Eiríksdóttir

Nemendur á þriðja og fjórða ári sem stunda nám í áfanganum ferðamálafræði lögðu af stað með rútu suður til Keflavíkur í gærkvöld (miðvikudagskvöldið 27. mars). Ætlunin var að fljúga frá landinu í átta hópum aðfaranótt fimmtudagsins og heimsækja jafnmargar borgir í Evrópu. Ferðalög sem þessi eru hluti af áfanganum.

Eins og kunnugt er var allt flug með flugfélaginu WOW air stöðvað í nótt og morgun og því góð ráð dýr þar sem tveir hópanna áttu pantað með WOW. Anna Eyfjörð Eiríksdóttir kennari sem hefur veg og vanda af undirbúningi og skipulagi við ferðalögin stóð í ströngu í nótt við að koma krökkunum í flug með öðrum flugfélögum. Það tókst svo nemendur munu á næstu dögum kynnast borgunum Valencia, Milano, Porto, Malaga, Pisa, Marseille, Verona og Nice.

Einn hópur átti pantað flug með WOW air heim til Íslands að loknu ferðalaginu. Vegna atburða síðasta sólarhrings var gripið til viðeigandi ráðstafana og nýtt flug pantað. Allir ættu því að komast heim á þeim tíma sem gert var ráð fyrir við upphaf ferðar. Við sendum góðar kveðjur yfir hafið til krakkanna.

Um áfangann segir svo í áfangalýsingu námskrár:

Í áfanganum er sjónum beint út fyrir landsteinana og verður nemendum úthlutað evrópskum borgum sem þeir munu vinna greinargerðir um. Nemendur eiga þar að leitast við að kynna sér staðhætti og menningu í viðkomandi borgum svo vel að þeir geti leiðbeint samnemendum sínum í vinnuferð í borginni. Í þessu verkefni verður sjónum beint að nokkrum Evrópulöndum og unnið með þau tungumál sem nemendur hafa lært í skóla eða annars staðar og töluð eru í löndunum. Nemendur fara til nokkurra þeirra borga sem valdar verða og safna heimildum sem síðar verða notaðar til að gera kynningarmyndband um borgina og kynningarefni um borgir erlendis fyrir grunnskólanemendur.