Þann 1. nóvember hélt gallvaskur hópur úr MA í fræðsluferð yfir í Þingeyjarsýslu. Voru þar á ferð nemendur úr 2. UVX ásamt kennurum sínum, þeim Þórhildi Björnsdóttur og Einari Sigtryggssyni. Bekkirnir þrír eru í jarðfræðiáfanga og var ferðin farin til að kynnast nýtingu jarðhitans.

Hópurinn byrjaði á að kynna sér starfsemina á Hveravöllum í Reykjahverfi en þar hefur heitt vatn verið nýtt til að rækta tómata í nærri hundrað ár. Var vel tekið á móti hópnum og Páll Ólafsson hafði frá mörgu að segja. Ef rétt var tekið eftir þá er ársuppskeran í tómötum, gúrkum og papriku um 500 tonn. Jarðhiti er enn nýttur við ræktunina en rafmagnslýsing einnig og hljóðar rafmagnsreikningur Páls upp á 5 milljónir á mánuði.

Næst var haldið upp í Kröfluvirkjun þar sem Helgi Arnar Alfreðsson tók á móti hópnum. Virkjunin var kynnt í þaula fyrir nemendum. Gossaga svæðisins fékk að fljóta með og Helgi sýndi nemendum rannsóknastofu virkjunarinnar en þar eru alls kyns sýni greind til að halda borholum í sem bestu ástandi.

Í lokin skellti hópurinn sér í sundlaugina á Laugum í Reykjadal. Ekki leiddist nemendum að láta líða úr sér í heitu pottunum fullir af fróðleik og skemmtilegum minningum.

Einar Sigtryggsson