Nemendur í Kröfluvirkjun
Nemendur í Kröfluvirkjun

Kennarar í jarðfræði, Einar Sigtryggsson og Þórhildur Björnsdóttir, fóru með 2.U, 2.V og 2.X í ferðalag á miðvikudag. Voru nemendur að kynna sér nýtingu á jarðhita á Íslandi og var förinni heitið austur á bóginn. Rútan brunaði með 51 nemanda alla leið á Hveravelli í Reykjahverfi, sem er skammt sunnan við Húsavík. Þar hefur jarðhitinn verið nýttur frá árinu 1906 og tómataræktun hófst þar árið 1930. Nú standa þar 11 gróðurhús, sem samtals eru 9.000 m2 að flatarmáli. Tómatar, gúrkur og paprika eru helstu afurðirnar frá Hveravöllum en ýmislegt annað er þó ræktað þar. 

Haldið var suður á bóginn eftir Kísilveginum alla leið upp í Mývatnssveit og þaðan inn í Kröflueldstöðina. Í Kröfluvirkjun tók Helgi Arnar Alfreðsson, stúdent úr MA árið 2004, á móti hópnum og leiddi nemendur í allan sannleikann um töfra jarðhitans, Kröfluvirkjun og eftirlit með borholum og vöktun á eldstöðinni. 

Á heimleið þótti tilvalið að demba hópnum í sund á Laugum í Reykjadal. Ferðin heppnaðist afar vel og nemendur voru sjálfum sér og skólanum til sóma. 

Einar Sigtryggsson

Fleiri myndir eru á facebook síðu skólans.