Stjórn Hugins skólaárið 2023-2024. Mynd: Huginn
Stjórn Hugins skólaárið 2023-2024. Mynd: Huginn

Skólafélag Menntaskólans á Akureyri birti á fésbókarsíðu sinni að kvöldi þriðjudagsins síðastliðins, yfirlýsingu vegna fyrirhugaðrar sameiningar MA og VMA. Þar kemur fram að stjórn félagsins sé með öllu mótfallin slíkum áformum og að hún muni ekki sitja með hendur í skauti á meðan „fólk í valdastöðu fer með framtíð okkar eins og þeim sýnist“ eins og segir orðrétt í yfirlýsingunni. Hægt er að lesa hana í heild sinni með því að smella hér.

Stjórn Hugins, nemendur og þau sem láta sig málið varða hafa sannarlega ekki setið aðgerðalaus þá tvo sólarhringa sem liðnir eru frá því að yfirlýsingin birtist. Nemendur og aðrir komu saman til mótmæla í gær til að láta í ljós andstöðu sína gegn hugmyndum um sameiningu MA og VMA. Nemendur fylktu liði niður á Ráðhústorg þar sem haldnar voru ræður og baráttusöngvar sungnir.

Málstaður stjórnar Hugins og annarra nemenda skólans hefur hlotið byr undir báða vængi víða í samfélaginu í gær og í dag. Fésbókarsíðu undir yfirskriftinni Stöðvum áform um sameiningu MA og VMA var hleypt af stokkunum um það leyti sem yfirlýsing Hugins fór í loftið. Nú þegar hafa rúmlega tvö þúsund einstaklingar lagt nafn sitt við síðuna. Þá hefur stjórn Hugins útbúið undirskriftarlista á netinu þar sem skorað er á yfirvöld að falla frá sameiningu skólanna tveggja. Hátt á þriðja þúsund undirskriftir hafa borist þegar þessi orð eru rituð.

Forseti skólafélagsins Krista Sól Guðjónsdóttir var innt eftir því af ma.is hvort von væri á frekari aðgerðum af hálfu félagsins og þá hverjar þær yrðu. Hún sagði stjórnina vera að meta viðbrögð við undirskriftarlistanum og í kjölfarið væri stefnt að því að skrifa opið bréf til ráðherra [Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra].