Nemendur njóta listar á Listasafninu
Nemendur njóta listar á Listasafninu

Listasafnið á Akureyri var vettvangur nemenda í 3. A og 3. L að morgni föstudags. Stefán Þór íslenskukennari og Bjarni sálfræðikennari brutu þá upp kennsluna með því að þiggja boð Listasafnsins um heimsókn og safnfræðslu. Guðrún Pálína tók vel á móti hópnum, fræddi, sýndi og lagði fyrir verkefni til að leyfa nemendum að taka meiri þátt í sýningunum en ella. Annars vegar sáum við valdar perlur sem Ragnar í Smára hafði gefið Listasafni ASÍ – Gjöfin til íslenskrar alþýðu. Klassísk verk eftir Kjarval, Ásgrím, Jón Stefáns og fleiri og nemendur gátu með einhverju móti tengt við stefnur og strauma í bókmenntum og öðrum listum. Hin sýningin var öllu nær nemendum í tíma og rúmi – Þitt besta er ekki nóg. Þetta er sýning þar sem heimamaðurinn ungi, Egill Logi Jónasson, blandar saman myndlist, tónlist og ljósasjói en hann kemur líka fram undir listamannsnafninu Drengurinn fengurinn. Tjáninguna í sýningu hans mátti vel tengja bæði við sálarfræði og bókmenntir og dægurmenningu nútímans. Ekki var annað að sjá en nemendur kynnu vel að meta þetta uppbrot og nú vita þeir líka, sem fæstir vissu, að þeir geta komið eins oft og þeir vilja á Listasafnið og þurfa ekki að borga neinn aðgangseyri!

Kennarar og nemendur þakka kærlega fyrir sig.

Stefán Þór Sæmundsson